Fótbolti

Reiknað með að Cavani þreyti frumraun sína í dag

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Paul Pogba, Edinson Cavani.
Paul Pogba, Edinson Cavani. vísir/Getty

Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United, vonast til að geta teflt Edinson Cavani fram í fyrsta sinn í dag þegar Man Utd fær Chelsea í heimsókn í ensku úrvalsdeildinni.

Cavani gekk til liðs við félagið á lokadegi félagaskiptagluggans en hann hafði verið án félags síðan hann yfirgaf PSG eftir síðustu leiktíð. 

Þessi 33 ára gamli Úrúgvæi hefur nýtt undanfarnar vikur til að gera sig kláran í slaginn og hann gæti leitt framlínu Man Utd í dag þar sem Anthony Martial er í leikbanni.

„Hann hefur auðvitað verið frá fótbolta í langan tíma og hann þurfti undirbúningstímabil. Hann er vel á sig kominn líkamlega og hefur hugsað vel um sig. Hann þurfti að vera í sóttkví í tvær vikur en við tryggðum að hann hefði góða aðstöðu til að æfa,“ segir Solskjær

„Hann hefur verið mjög vandvirkur í sinni þjálfun og er vel undirbúinn. Hann var ekki tilbúinn í leikinn gegn PSG en hann hefur í staðinn unnið vel alla vikuna og vonandi verður hann klár í leikinn gegn Chelsea. Ég er vongóður,“ segir Solskjær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×