Innlent

Breyta þurfi reglugerð um einkennisfatnað lögreglumanna

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri segir að allir lögreglustjórar landsins hafi komið því skýrt á framfæri við lögregluliðin að persónuleg merki á einkennisbúningnum verði ekki liðinn.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri segir að allir lögreglustjórar landsins hafi komið því skýrt á framfæri við lögregluliðin að persónuleg merki á einkennisbúningnum verði ekki liðinn. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Ríkislögreglustjóri telur að breyta þurfi reglugerð um einkennisfatnað lögreglumanna eftir að fánamálið svokallaða kom upp. Allir lögreglustjórar landsins hafi komið því skýrt á framfæri við lögregluliðin að persónuleg merki á einkennisbúningnum verði ekki liðinn.

Talsverð reiði hefur birts á samfélagsmiðlum síðustu daga vegna myndar sem sýnir íslenska lögreglukonu með fána á undirvesti sínu sem haldið hefur verið fram að tengist hatursorðræðu.

„Okkur þykir mjög leiðinlegt að þetta skyldi hafa komið upp og það má sjá það á viðbrögðum yfirstjórnar og lögreglumanna að það taka þetta allir nærri sér,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri. 

Er þetta mál áfall fyrir lögregluna að þínu mati? 

Nei, ég tel svo ekki vera. Þetta kemur upp og það er strax tekið á málunum hjá viðkomandi lögregluliði.“

Fyrirmæli voru send á alla lögreglumenn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um að fjarlægja persónulegar merkingar af vestum sínum. 

Sigríður segist hafa rætt við alla lögreglustjóra landsins vegna málsins sem margir hafi brugðist við með svipuðum hætti. „Þá hafa þeir allir komið því skýrt til skila að þetta verður ekki liðið,“ segir Sigríður. 

Lögreglustjórar séu sammála um að breyta þurfi á reglugerð um einkennisfatnað lögreglumanna. „Það má skerpa á henni. Þarna er verið að tala um hvaða merki eru leyfileg en það þarf líka að tala um það hvað er bannað en það hefur ekki verið gert. Það þarf að aðlaga reglugerðina að nútímanum,“ segir Sigríður og bætir við að málið verði tekið fyrir á næsta fundi lögregluráðs í nóvember. 

Þá séu allir sammála um að auka á fræðslu um hatursorðræðu meðal lögreglumanna. „Það eru margir málaflokkar sem við viljum skerpa á hjá lögreglu og haturglæpir eru klárlega einn af þeim,“ segir Sigríður Björk. 


Tengdar fréttir

Erfitt að koma því í nógu sterk orð hvað myndin er ljót

Allir lögreglumenn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu eru búnir að fjarlægja persónulegar merkingar af búningi sínum að sögn yfirlögregluþjóns. Hann er sorgmæddur yfir því hvernig umræðan um málið hefur þróast.

Biggi lögga telur fána­málið geta styrkt lög­regluna

Lögreglumaðurinn Birgir Örn Guðjónsson, betur þekktur sem Biggi lögga, telur að fánamálið svokallaða sem upp kom hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í vikunni geti styrkt lögregluna til framtíðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×