Enski boltinn

Um­boðs­maður Özil segir Arteta ljúga að stuðnings­mönnum Arsenal

Anton Ingi Leifsson skrifar
Özil í æfingaleik á tímum kórónuveirunnar.
Özil í æfingaleik á tímum kórónuveirunnar. vísir/getty

Erkut Sogut, umboðsmaður Mesut Özil, vandar Mikel Arteta, stjóra Arsenal, ekki kveðjurnar í viðtali við ESPN. Umbinn sakar Arteta um að ljúga að stuðningsmönnum Arsenal.

Özil hefur ekki leikið fyrir Arsenal síðan í mars, hann er ekki í leikmannahópi liðsins í Evrópudeildinni og heldur ekki í leikmannahópnum í úrvalsdeildinni. Hann mun því í fyrsta lagi spila leik í janúar.

„Stuðningsmenn Arsenal eiga skilið hreinskilna útskýringu frá Arteta. Ekki að hann segi að honum hafi mistekist með Özil. Þér mistókst ekki með Özil; þér mistókst að vera hreinskilinn, heiðarlegur og gegnsær og að meðhöndla leikmanninn með virðingu sem er á samning og hefur verið traustur allan tímann,“ sagði Erkut.

„Allir vita að meðhöndlunin hans hefur ekki verið sanngjörn. Hann gaf honum ekki möguleika á að sýna sig á þessari leiktíð. Ef hann er enn á samningi þá ætti leikmaðurinn að fá möguleika á að berjast fyrir sætinu sinu.“

„Mesut hefur ekki verið gefinn þessi möguleiki. Afhverju varstu með leikmann á bekknum í 90 mínútur gegn Brighton og Crystal Palace í júní ef hann var ekki í formi eða er ekki klár? Allir sögðu að hann væri að æfa vel. Per Mertesacker sagði það opinberlega.“

Arsenal gaf út að ástæðan fyrir því að sá þýski væri fyrir utan hópinn væri af íþróttalegum ástæðum en umboðsmaðurinn gefur lítið fyrir þær útskýringar.

„Ég talaði við minnst fimm samherja hans sem sögðu allir að hann væri að æfa mjög vel. Þeir sögðu að Mesut væri einn af besti leikmönnunum og þeir skildu ekki afhverju hann væri í kuldanum. Svo þetta er ekki æfingarlega séð, ekki á vellinum - svo hverjar eru fótboltalegu ástæðurnar? Ef þú ætlar að tala, segðu þá sannleikann því stuðningsmennirnir eiga ekki skilið neitt annað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×