Fótbolti

Jón Dagur lagði upp í stórsigri AGF

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jón Dagur kom að einu marka AGF í dag. Liðið er enn taplaust í deildinni að loknum fimm umferðum.
Jón Dagur kom að einu marka AGF í dag. Liðið er enn taplaust í deildinni að loknum fimm umferðum. AGF

Jón Dagur Þorsteinsson lagði upp eitt marka AGF er liðið lagði Horsens í dönsku úrvalsdeildinni í dag. Jón Dagur var í byrjunarliði AGF og Kjartan Henry Finnbogason byrjaði leikinn á varamannabekk Horsens. Ágúst Eðvald Hlynsson var hins vegar ekki í leikmannahópi gestanna. 

Fór það svo að AGF vann leikinn örugglega, lokatölur 3-0 í dag

Albert Grønbæk kom AGF yfir eftir hálftíma leik eftir sendingu Jóns Dags. Var það eina mark fyrri hálfleiks. Patrick Mortensen tvöfaldaði forystu AGF á 53. mínútu, skömmu síðar kom Kjartan Henry inn af bekknum. Áður en hann náði að láta ljós sitt skína fékk Bjarke Jacobsen rautt spjald í liði Horsens og liðið því tveimur mörkum undir og manni færri.

Casper Højer kom AGF í 3-0 aðeins tveimur mínutum eftir að Bjarke fékk rautt og leikurinn þar með í raun búinn þó enn væru rúmar tuttugu mínútur eftir af honum. Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur 3-0.

Jón Dagur var tekinn af velli þegar tíu mínútur voru eftir.

AGF er í 2. sæti deildarinnar með 11 stig eftir fimm leiki, þrjá sigra og tvö jafntefli. Horsens eru aftur á móti í 12. og neðsta sæti deildarinnar með aðeins eitt stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×