Innlent

Veiðistofn rjúpu einn sá minnsti í aldarfjórðung

Kjartan Kjartansson skrifar
Aðeins einu sinni hefur veiðistofn rjúpu mælst smærri en í ár. Það var fyrir átján árum.
Aðeins einu sinni hefur veiðistofn rjúpu mælst smærri en í ár. Það var fyrir átján árum. Vísir/Vilhelm

Fyrirkomulag rjúpnaveiða í haust verður með sama sniði og í fyrra þrátt fyrir að veiðistofn rjúpu sé nú einn sá minnsti frá því að mælingar hófust árið 1995. Yfirvöld hvetja því veiðimenn til þess að sýna hófsemi í veiðum.

Aðeins einu sinni hefur stofninn mælst álíka lítill og nú, árið 2002. Í tilkynningu frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu kemur fram að veiðiþol stofnsins nú sé metið 25.000 rjúpur sem sé um 35% af metnu veiðiþoli í fyrra.

„Veiðimenn eru eindregið hvattir til að sýna hófsemi og eru sérstaklega beðnir um að gera hvað þeir geta til að særa ekki fugl umfram það sem þeir veiða m.a. með því að ljúka veiðum áður en rökkvar. Umhverfisstofnun hvetur til hófsemi í veiðum sem eiga að miða við veiði til eigin neyslu,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Líkt og í fyrra verður veiðitímabilið frá 1.-30. nóvember. Heimilt verður að veiða fimm daga í viku frá föstudegi til þriðjudags en veiðibann verður í gildi á miðvikudögum og fimmtudögum. Sölubann á rjúpum er áfram í gildi sem þýðir að bannað er að flytja út, bjóða til sölu eða selja rjúpur og rjúpnaafurðir.

Verndarsvæði verður á suðvesturlandi líkt og undanfarin ár.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×