Innlent

Þriðja árið í röð sem lagt er til að loðna verði ekki veidd

Samúel Karl Ólason skrifar
Veiðistofninn verður mældur aftur í janúar og febrúar á næsta ári og þá verður ráðgjöfin endurskoðuð.
Veiðistofninn verður mældur aftur í janúar og febrúar á næsta ári og þá verður ráðgjöfin endurskoðuð. Getty/Craig F. Walker

Hafrannsóknarstofnun Íslands leggur til að engar loðnuveiðar verði á þessari vertíð, þriðja árið í röð. Heildarmagn loðnu í stofnmælingum stofnunarinnar mældist rúmlega milljón tonn. Þar af er mikið af ungloðnu. Hið mikla hlutfall ungloðnu fer gegn viðmiðum hins opinbera.

Bergmálsmælingar voru framkvæmdar á rannsóknarskipinu Árna Friðrikssyni og norska uppsjávarskipinu Erosi frá 7. september til 5. október. Í tilkynningu á vef Hafró segir að hafís hafi komið niður á rannsóknum á norðanverðu rannsóknarsvæðinu og því gæti magn kynþroska loðnu hafa verið vanmetið.

Bláa línan táknar leiðangurslínur Árna Friðrikssonar og sú græna Eros.Vísir/Hafrannsóknastofnun

Eins og áður segir var heildarmagnið sem mældist rúmlega milljón tonn. Þar af var metin stærð veiðistofns fyrir núverandi vertíð um 344 þúsund tonn. Um 734 þúsund tonn hafi verið ókynþroska.

Miðað við gildandi aflareglur eigi að skilja eftir 150 þúsund tonn til hrygningar í mars 2021.

„Tekur aflareglan tillit til óvissumats útreikninganna, vaxtar og náttúrulegrar dánartölu loðnu, auk afráns þorsks, ýsu og ufsa á loðnu. Í samræmi við ofangreinda aflareglu leggur Hafrannsóknastofnun til að ekki verði leyfðar loðnuveiðar á vertíðinni 2020/2021 þar sem framreikningar á stærð hrygningarstofnsins við hrygningu ná ekki þessum mörkum.“

Veiðistofninn verður mældur aftur í janúar og febrúar á næsta ári og þá verður ráðgjöfin endurskoðuð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×