Erlent

Johnson segir litlar líkur á samningi

Samúel Karl Ólason skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AP/Breska þingið/Jessica Taylor

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segir að Bretar eigi að undirbúa sig fyrir að vera án fríverslunarsamnings við Evrópusambandið þann 1. janúar. Hann sakar ráðmenn í Brussel um að hafa „yfirgefið“ samningaviðræður við Breta og segir að þeir verði að breyta um stefnu. Annars séu viðræður tilgangslausar.

Nái Bretar og ESB ekki saman fyrir áramótin eru líkur á því að breskar birgðakeðjur munu raskast verulega og verð hækka. Það mun jafnvel leiða til mikillar óreiðu þar. Það yrði þá á sama tíma og hagkerfi Bretlands hefur þegar tekið á sig mikið högg vegna heimsfaraldurs nýju kórónuveirunnar.

Í yfirlýsingu sagði Johnson í dag að Bretar muni undirbúa sig vel og í kjölfarið muni Bretland vaxa og dafna sem frjáls viðskiptaþjóð sem setji sín eigin lög. Í millitíðinni muni ríkisstjórn hans einbeita sér að því að berjast gegn faraldri nýju kórónuveirunnar, sem veldur Covid-19.

Ríkisstjórn Johnson hefur gert breytingar á lögum sem eru í tra´ssi við alþjóðalög og og eru í raun breyting á útgöngusamningi sem ríkisstjórn hans var búin að gera við ESB.

Johnson fundaði í dag með forsvarsmönnum ESB í gær og heldur hann því fram að sambandið vilji áfram hafa stjórn á lögum Bretlands og fiskimiðum. Það sé óásættanlegt.

Hann sakar ESB sömuleiðis um að hafa neitað að semja af fullri alvöru.

Eftir leiðtogafund ESB í Brussel í dag voru skilaboðin þaðan að þeir vildu að viðræður héldu áfram. Hins vegar þyrftu Bretar að endurhugsa einhverjar kröfur, samkvæmt frétt Reuters.

Í kjölfarið sagði talsmaður Johnson að með þeim yfirlýsingum væri ESB í raun að stöðva viðræðurnar. Leiðtogar ESB eru þó ekki sannfærðir um það að viðræðum sé lokið og telja mögulegt að um samningabragð Breta sé að ræða.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sagði viðræðurnar ekki hafa strandað á veiðum. Þær hefðu strandað á mun fleiri atriðum en það.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×