Fótbolti

Spilar á miðjunni með fyrirmyndinni sinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexandra Jóhannsdóttir í leiknum gegn Lettlandi í síðasta mánuði. Hún skoraði eitt marka Íslands í 9-0 sigri.
Alexandra Jóhannsdóttir í leiknum gegn Lettlandi í síðasta mánuði. Hún skoraði eitt marka Íslands í 9-0 sigri. vísir/vilhelm

Alexandra Jóhannsdóttir hefur stimplað sig rækilega inn í íslenska kvennalandsliðið í fótbolta á undanförnum mánuðum.

Hún byrjaði báða leikina í síðustu landsleikjahrinu, gegn Lettlandi og Svíþjóð í undankeppni EM, og lék allar 90 mínúturnar í báðum leikjunum. Alexandra skoraði eitt mark í 9-0 sigrinum á Lettum og lék svo vel í 1-1 jafnteflinu við Svía, bronslið síðasta heimsmeistaramóts.

Alexandra var gestur Pepsi Max marka kvenna í fyrradag ásamt landsliðsþjálfaranum Jóni Þór Haukssyni. Þegar Helena Ólafsdóttir spurði Alexöndru hver fyrirmynd hennar væri stóð ekki á svari hjá henni.

„Sara Björk [Gunnarsdóttir] sem spilar með mér á miðjunni,“ sagði Alexandra.

Líkt og Sara kemur Alexandra úr Haukum og líkt og Sara fór hún þaðan til Breiðabliks. Alexandra er á sínu þriðja tímabili hjá Blikum en óvíst er hvort hún verður þar áfram. Hún vildi þó lítið gefa upp þegar Helena spurði hvort hann væri farin að hugsa sér til hreyfings.

„Ég held að það komi bara í ljós. Það er verið að vinna í einhverju en það kemur bara í ljós,“ sagði Alexandra sem var svo spurð hver draumadeildin væri.

„Það er margt sem heillar. Það eru nokkur tilboð í gangi en ekkert ákveðið og þetta er enn smá óljóst,“ sagði Alexandra.

Hafnfirðingurinn tvítugi hefur leikið sjö A-landsleiki og skorað tvö mörk, bæði gegn Lettlandi í undankeppni EM 2021.

Alexandra og stöllur hennar í Breiðabliki eru með tveggja stiga forskot á toppi Pepsi Max-deildar kvenna og eiga auk þess leik til góða á liðið í 2. sæti, Val.

Klippa: Pepsi Max mörk kvenna - Alexandra um fyrirmyndina

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×