Erlent

Lýsir yfir neyðar­á­standi vegna mót­mæla í Bang­kok

Kjartan Kjartansson skrifar
Mótmælendur í Bangkok halda þremur fingrum á lofti en það hefur orðið að tákni hreyfingar sem andæfir ríkisstjórn Taílands.
Mótmælendur í Bangkok halda þremur fingrum á lofti en það hefur orðið að tákni hreyfingar sem andæfir ríkisstjórn Taílands. Vísir/EPA

Forsætisráðherra Taílands lýsti yfir neyðarástandi vegna mótmæla sem geisa nú í höfuðborginni Bangkok. Mótmælendur hafa krafist afsagnar forsætisráðherrans og að dregið verði úr völdum Maha Vajiralongkorn konungs.

Tilkynnt var um neyðaryfirlýsinguna í taílenska ríkissjónvarpinu í kvöld en hún veitir yfirvöldum heimildir til þess að beita valdi til þess að stöðva mótmælin. Saka yfirvöld mótmælendur um að valda glundroða og óspektum. Neyðarheimildirnar séu nauðsynlegar til að koma á lögum og reglu. Þær tóku gildi klukkan fjögur í nótt að staðartíma, klukkan 21:00 í kvöld að íslenskum tíma.

Mótmælin hófust í júlí undir forystu stúdenta en upphaf þeirra má rekja til þess að dómstóll skipaði fyrir um að stjórnarandstöðuflokkur skyldi leystur upp í febrúar. Þau hafa síðan undið upp á sig og voru mótmæli sem fóru fram í Bangkok um helgina þau stærstu í fleiri ár. Þúsundir manna virtu þá samkomutakmarkanir yfirvalda að vettugi og kröfðust breytinga, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Tjaldbúðum hefur verið slegið upp fyrir utan skrifstofu Prayuth Chan-ocha forsætisráðherra og mótmælendur þyrptust að bílalest konungs fyrr í dag. Prayuth er fyrrverandi herforingi sem tók þátt í valdaráni hersins árið 2014. Mótmælendur krefjast þess að ríkisstjórn hans fari frá og að stjórnvöld hætti að ofsækja andófsfólk.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.