Fótbolti

Birkir Már áfram í markagírnum: Því miður eru engir leikir fram undan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birkir Már Sævarsson í leiknum á móti Belgum í kvöld.
Birkir Már Sævarsson í leiknum á móti Belgum í kvöld. Vísir/Vilhelm

Birkir Már Sævarsson skoraði mark Íslands í tapinu á móti Belgíu í kvöld og átti mjög góðan leik með í sínum fyrsta leik með íslenska landsliðinu í smá tíma.

„Mér fannst þetta vera fínn leikur hjá okkur og þá sérstaklega var seinni hálfleikurinn góður. Við náðum að leysa það sem var ekki eins gott hjá okkur í fyrri hálfleiknum,“ sagði Birkir Már Sævarsson í viðtali við Henry Birgir Gunnarsson eftir leikinn.

„Það var frábært að koma aftur í landsliðið og þetta eru búnir að vera góðir níu eða tíu dagar með liðinu. Þetta var flott verkefni, við unnum leikinn sem skipti mestu máli og tryggðum okkur úrslitaleik í nóvember. Þetta var góður undirbúningur fyrir þann leik,“ sagði Birkir Már.

Nú spyr bara þjóðin hvort að Birkir sé með einhver svör við því af hverju hann er farinn að skora í hverjum einasta leik.

„Nei ég hef engin svör. Ætli það sé ekki bara að maðurinn er kominn í eitthvað ‚zone' fyrir framan markið. Mér er farið að líða betur og betur fyrir framan markið og ég er farinn að klára færin. Ég veit það ekki hvað ég á að segja. Maður dettur í einhvern svona gír og vonandi að það haldi bara sem lengst áfram,“ sagði Birkir Már en það er eitt slæmt við það.

„Því miður eru engir leikir fram undan eins og þetta lítur úr núna. Þetta hlýtur að stoppa einhvers staðar,“ sagði Birkir Már en hvaða væntingar gerir hann til að spila leikinn á móti Ungverjum. Er hann að setja pressu á að spila þann leik.

„Nei ekki í inn í byrjunarliðið því ég held að Gulli sé bara með þá stöðu og hann var frábær í þessum tveimur leikjum á undan þessum. Hann á skilið að spila þennan Ungverjaleik ef hann er heill. Ef þeir vilja fá mig í verkefnið, bæði til að styðja við bakið á Gulla og seta smá pressu á hann, þá er ég klár,“ sagði Birkir Már.

Klippa: Viðtal við Birki Má



Fleiri fréttir

Sjá meira


×