Íslenski boltinn

Fulham nældi í Selfyssing

Sindri Sverrisson skrifar
Þorsteinn Aron Antonsson hefur leikið með Selfossi í 2. deildinni í sumar, 16 ára gamall.
Þorsteinn Aron Antonsson hefur leikið með Selfossi í 2. deildinni í sumar, 16 ára gamall. @selfossfotbolti

Enska úrvalsdeildarfélagið Fulham hefur fest kaup á hinum 16 ára gamla Þorsteini Aroni Antonssyni.

Fulham fær Þorstein frá Selfossi en frá þessu er meðal annars greint á Twitter-síðu Selfyssinga. Þorsteinn skrifaði undir samning til þriggja ára við enska félagið.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Þorsteinn spilað 14 leiki í 2. deild með Selfossi í sumar, og skorað í þeim tvö mörk.

Þorsteinn fetar í fótspor nokkurra Íslendinga sem samið hafa við Lundúnafélagið Fulham. Heiðar Helguson lék með liðinu á árunum 2005-2007, Eiður Smári Guðjohnsen staldraði þar stutt við að láni frá Stoke árið 2011, og Ragnar Sigurðsson lék 17 leiki með liðinu í ensku B-deildinni veturinn 2016-17.

Þá hafa Jón Dagur Þorsteinsson og Atli Hrafn Andrason leikið með yngri liðum Fulham, en eru nú hjá Aarhus í Danmörku og Breiðabliki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×