Enski boltinn

Segir að United hafi fengið Cavani fimm árum of seint

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Edinson Cavani vann fjölda titla hjá Paris Saint-Germain.
Edinson Cavani vann fjölda titla hjá Paris Saint-Germain. getty/Aurelien Meunier

Paul Scholes, fyrrverandi leikmaður Manchester United, efast um að það hafi verið góð hugmynd hjá félaginu að semja við Edinson Cavani.

Úrúgvæski framherjinn skrifaði undir tveggja ára samning við United á lokadegi félagaskiptagluggans. Cavani yfirgaf Paris Saint-Germain í sumar eftir sjö ár hjá franska félaginu.

Scholes hefur ekki mikla trú á Cavani og efast um að hann hjálpi United að taka skref fram á við.

„Hann var augljóslega frábær framherji þegar hann var uppi á sitt besta. Það er engin spurning um það. En hann er 33 ára og það leit út fyrir að hann myndi hætta. Hann spilaði ekki mikið fyrir PSG á síðasta tímabili,“ sagði Scholes.

„Fyrir fimm árum hefðu þetta verið frábær kaup og hann hefði getað hjálpað okkur að komast á næsta stig. En ég sé það ekki gerast núna.“

Scholes segir að United hefði átt að semja við Cavani til skamms tíma, ekki til tveggja ára.

„Ef þú ert í vandræðum án framherja ætti þetta að vera tveggja til þriggja mánaða lán til að komast í gegnum þessa erfiðleika, svipað um Henrik Larsson gerði. Frábær framherji sem var kominn á efri ár. Hann fyllti skarð fyrir okkur sem var nákvæmlega það sem við þurftum,“ sagði Scholes og vísaði til þess þegar United fékk Larsson á láni um mitt tímabil 2006-07.

Cavani gæti leikið sinn fyrsta leik fyrir United þegar liðið fær Newcastle United í heimsókn í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×