Erlent

Segja próf gefa já­­­kvæða niður­­­­­stöðu þó ein­stak­lingur sé ekki smitandi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Prófað fyrir kórónuveirunni í Miami í Bandaríkjunum.
Prófað fyrir kórónuveirunni í Miami í Bandaríkjunum. Joe Raedle/Getty

Heilbrigðissérfræðingar í Bandaríkjunum hafa lýst yfir áhyggjum af því að stöðluð kórónuveirupróf séu of næm og sýni þess vegna of oft jákvæða niðurstöðu fyrir veirunni. Þetta kemur fram í umfjöllun New York Times.

Það kann að orka tvímælis að segja að próf sem ætlað er að skima fyrir mögulega banvænum sjúkdómi sé „of gott.“ Það sem faraldursfræðingar eiga þó við með því er að mögulegt er að prófin veiti jákvæða niðurstöðu úr skimun á fólki sem er með tiltölulega lítið veirumagn.

Einstaklingar með lítið magn veirunnar í sér séu ólíklegir til þess að smita aðra, og greining á þeim geti skapað „flöskuháls“ sem tefji fyrir smitrakningu og geri þannig erfiðara að finna smitandi einstaklinga sem eru með meira magn veirunnar í sér. Þetta bendi til þess að þörf sé á hraðvirkari prófum, sem kunni að vera minna næm fyrir litlu magni af veirunni.

Magnið mergurinn málsins

Prófin sem nú eru notuð í Bandaríkjunum veita einfaldlega upplýsingar um hvort einstaklingur er með veiruna í sér eða ekki, líkt og um nei eða já spurningu sé að ræða. Vísindamenn hafa hins vegar kallað eftir því að tekin verði í notkun próf sem gefi með niðurstöðum grófa mynd af magni veirunnar í hverjum einstaklingi sem skimaður er.

Einn þeirra er Dr. Michael Mina, faraldursfræðingur við Harvard T.H School of Public Health í Bandaríkjunum. Hann telur að prófa þurfi sem flesta með slíkum prófum, einnig einkennalaust fólk. Ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta tilkynnti á fimmtudag að hún hefði fest kaup á 150 milljón slíkum prófum.

„Við erum búin að vera að nota eina gerð tölfræði fyrir allt, plús eða mínus. Það er allt og sumt. Við notum það í klínískum greiningum, í umræðu um lýðheilsu og við pólitíska ákvarðanatöku,“ hefur NYT eftir Mina.

Hann segir hins vegar að þessi nálgun, já eða nei, sé ekki vænleg til árangurs. Það sé veirumagn sem ætti að hafa eitthvað að segja um hvaða skref verði tekin með Covid-sjúklingum í kjölfar greiningar.

„Að mínu viti er afar óábyrgt að hundsa þá staðreynd að þetta snýst um magn.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.