Fótbolti

Mjög mikið afrek að vinna svo stóran sigur hér

Sindri Sverrisson skrifar
Kasper Hjulmand á hlaupabrautinni í Laugardal í kvöld.
Kasper Hjulmand á hlaupabrautinni í Laugardal í kvöld. VÍSIR/VILHELM

„Ég er mjög ánægður. Það er mjög erfitt að koma hingað og spila gegn þessu íslenska liði,“ sagði Kasper Hjulmand, þjálfari Dana, eftir 3-0 sigurinn gegn Íslandi í Þjóðadeildinni í fótbolta.

Hjulmand talaði vel um íslenska liðið bæði fyrir og eftir leik, og ljóst að hann var kampakátur með fyrsta sigur danska liðsins í keppninni í ár:

„Ég ber mikla virðingu fyrir þessum íslenska leikmannahópi og því sem hann hefur afrekað. Ef að þeir tapa á heimavelli eru það samt alltaf mjög jafnir leikir og þá nánast alltaf naum töp. Það er mjög mikið afrek að vinna 3-0 sigur hérna,“ sagði Hjulmand.

Það reyndi ekki mikið á Kasper Schmeichel í kvöld en hér er hann þó í þann mund að fara að verja frá Mikael Andersyni.VÍSIR/VILHELM

Danir komust yfir í blálokin á fyrri hálfleik en af sjónvarpsmyndum að dæma virtist markið ekki eiga að standa. Hvað fannst Hjulmand, fór boltinn inn fyrir línuna?

„Ég hef ekki hugmynd , ég sá það ekki þar sem ég var og hef ekki horft á þetta aftur,“ sagði þjálfarinn og brosti.

Ljóst er að Hjulmand gat verið ánægður með afar margt eftir leikinn í kvöld. Hver var lykillinn að sigrinum?

„Ég held að við höfum stjórnað leiknum. Við vorum mikið með boltann, reyndum að sækja út fyrir þétta pakkann þeirra, áttum hættulegar fyrirgjafir, vorum fljótir að sækja og héldum þeim vel frá markinu okkar. Þetta var heilt yfir mjög góð frammistaða og ég held að við höfum verið betra liðið.“


Tengdar fréttir

Hannes segir boltann ekki hafa verið inni

„Nei, ég upplifði ekki að hann væri inni. Ég var mjög ánægður með að ná honum. Hann er hálfur inni. Marklínutækni hefði aldrei dæmt þetta mark,“ sagði Hannes Þór Halldórsson, markvörður Íslands, eftir tapleikinn í kvöld gegn Dönum.

Einkunnir Íslands: Gulli Victor stóð upp úr á döpru kvöldi

Karlalandslið Íslands reið ekki feitum hesti frekar en fyrri daginn frá viðureign sinni við Dani í Þjóðadeildinni í kvöld. Strákarnir okkar töpuðu 3-0 en um sjöunda tap Íslands í röð er að ræða í Þjóðadeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×