Innlent

Guðni sendir þjóðinni kveðju

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Vísir/vilhelm

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands hvetur Íslendinga til að standa saman gegn kórónuveirufaraldrinum í kveðju til þjóðarinnar sem birt var í kvöld. Hann segist skilja að landsmenn séu orðnir þreyttir en nú skipti máli að sýna einhug.

„Nú þurfum við að lyfta oki í samtaki. Við þurfum að sýna sama einhug og reyndist okkur svo vel í vor. Já, við þurfum að standa saman, með tvo metra á milli okkar,“ segir Guðni í ávarpi sínu.

Hann hvetur Íslendinga til að vera duglegir að þvo á sér hendur, nota grímu og kynna sér tilmæli á Covid.is.

„Ég veit að við erum mörg orðin þreytt. Ég veit af erfiðri stöðu margra. En hitt held ég að við vitum líka flest að ef við slítum í sundur varnarkeðju okkar slítum við líka í sundur þann þráð sem tengir okkur saman, gerir okkur að þjóð, gerir okkur að samfélagi,“ segir forsetinn.

„Ég hef sagt það áður og segi það enn, við höfum séð það svartara og munum sjá það bjartara. Síðar á þessari öld munu ung börn segja við ömmu og afa: Hvað gerðir þú í COVID-19? Og þá verður gott að geta svarað: Ég gerði mitt besta, ég sinnti eigin sóttvörnum, ég tók tillit til annarra, ég reyndi að vera hluti lausnarinnar en ekki vandans.“

Ávarp Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands má horfa á í spilaranum hér fyrir neðan. Ávarpið má einnig lesa í heild hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×