Fótbolti

Gylfi jafnaði markamet Eiðs Smára í leikjum sem skipta máli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar fyrra marki sínu í leiknum á móti Rúmeníu í gær.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar fyrra marki sínu í leiknum á móti Rúmeníu í gær. Vísir/Vilhelm

Gylfi Þór Sigurðsson er nú sá leikmaður sem hefur skorað flest mörk fyrir íslenska landsliðið í keppnisleikjum. Eftir mörkin tvö gegn Rúmenum í gær þá deilir hann efsta sætinu með Eiði Smára Guðjohnsen.

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði í gær mark númer 20 og 21 í leikjum sem skipta máli. Þar er átt við leiki Íslands í keppnum eins og HM, EM eða Þjóðadeildinni.

Með því komst hann upp að hlið Eiðs Smára Guðjohnen í efsta sæti listans. Kolbeinn Sigþórsson er síðan í þriðja sætinu með 13 mörk.

Kolbeinn á markametið með Eiði Smára en báðir hafa þeir skorað 26 mörk í öllum leikjum fyrir landsliðið. Gylfi er nú tveimur mörkum á eftir þeim.

Gylfi er aftur á móti búinn að skorað 21 af 24 mörkum sínum fyrir íslenska landsliðið í keppnisleikjum eða 88 prósent marka sinna.

Gylfi er búinn að skora 12 mörk í leikjum í Evrópukeppni og 9 mörk í leikjum í heimsmeistarakeppni.

Eiður Smári skoraði 10 mörk í leikjum í Evrópukeppni og 11 mörk í leikjum í heimsmeistarakeppni.

Flest mörk í keppnisleikjum með íslenska landsliðinu:

  • 21 mark - Gylfi Þór Sigurðsson (58 leikir)
  • 21 mark - Eiður Smári Guðjohnsen (64 leikir)
  • 13 mörk - Kolbeinn Sigþórsson (37 leikir)
  • 11 mörk - Birkir Bjarnason (61 leikur)
  • 8 mörk - Ríkharður Daðason (26 leikir)
  • 7 mörk - Alfreð Finnbogason (39 leikir)

Hér fyrir neðan má sjá mörkin hans Gylfa frá því í leiknum í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×