Innlent

Óttast að Brynjar van­meti stöðuna: „Það þarf ekki mikið til svo út af bregði“

Sylvía Hall skrifar
Ragnar Freyr er umsjónarlæknir Covid-göngudeildar Landspítalans. Hann telur Brynjar vanmeta þær afleiðingar sem óheft útbreiðsla gæti haft í för með sér.
Ragnar Freyr er umsjónarlæknir Covid-göngudeildar Landspítalans. Hann telur Brynjar vanmeta þær afleiðingar sem óheft útbreiðsla gæti haft í för með sér. Vísir

„Ég held hann hafi litla hugmynd um hvaða raunveruleiki blasir við okkur sem störfum á gólfinu á Landspítalanum,“ segir Ragnar Freyr Ingvarsson, umsjónarlæknir Covid-göngudeildar Landspítalans, um ummæli Brynjars Níelssonar í viðtali við mbl.is. Hann hefur verulegar áhyggjur af því að samstaða þjóðarinnar sé minni en áður en verkefnið sé síður en svo minna alvarlegt.

Ragnar fer yfir stöðu mála í færslu á Facebook-síðu sinni í kvöld. Hann segir ljóst að ef faraldurinn fengi að dreifast um samfélagið án þess að gripið yrði til takmarkana myndi fjöldi fórnarlamba margfaldast. „Getur verið að Brynjar eigi í erfiðleikum með að skilja tölur og margfeldi þeirra?“ spyr Ragnar.

„Í fyrstu bylgju smituðust um 3600 einstaklingar. 115 lögðust inn á sjúkrahús, 26 á gjörgæslu og 10 létust. Og það var á meðan allt samfélagið lagðist heilshugar á eitt, breytti hegðun sinni, til að takast á við þessa gríðarstóru áskorun. Við þær aðstæður uppskárum þó þennan fórnarkostnað.“

Hann bendir á að ef tíu sinnum fleiri myndu veikjast í þessari bylgju myndu dauðsföllin vera hundrað, og það væri að öllum líkindum skásta sviðsmyndin. Þær tölur tækju mið af því sem gerðist í fyrstu bylgju þegar samtakamátturinn var sem mestur. Og jafnvel þó að tíu sinnum fleiri myndu veikjast væru níutíu prósent landsmanna enn næmir fyrir veirunni.

„Þarna gef ég mér allar bestu forsendur sem völ er á. Ef við myndum gera aðgerðirnar alveg eins harðar og við gerðum í vor, og allt myndi ganga upp, þá myndi samt sem áður þetta tjón mögulega hljótast af,“ segir Ragnar í samtali við Vísi. 

Hundrað innlagnir myndu „yfirgnæfa allt“

Brynjar fullyrti í samtali við mbl.is að heilbrigðiskerfið gæti ráðið við fleiri Covid-sjúklinga. „Það er ekki bara Landspítalinn sem getur séð um sjúklinga. Það sem ég er að segja er að heilbrigðis­kerfið í heild sinni getur ráðið við fleiri,“ sagði Brynjar og vísaði meðal annars til einkaaðila í heilbrigðisþjónustu.

Ragnar gefur lítið fyrir ummæli Brynjars og segir ljóst að mikill fjöldi innlagna yrði Landspítalanum ofviða. Rúmlega sex hundruð rúm væru á Landspítalanum „og þau eru þéttsetin,“ segir Ragnar. „Þar er fólk sem þarf á okkur að halda.“

Hann nefnir sem dæmi að eitt til tvö rúm séu laus á A7 þessa stundina. Í ofanálag þurfi heilbrigðisstarfsfólk einnig að sinna þeim sjúklingum sem leita sér hjálpar vegna annarra kvilla en Covid. Í vor hafi nánast allt verið lagt til hliðar, en það gangi ekki til lengdar.

Ragnar segir ekki endalaust svigrúm vera til þess að taka á móti sjúklingum. Því verði að sporna gegn útbreiðslunni til þess að koma í veg fyrir að fleiri veikist alvarlega.Vísir/Vilhelm

„Það eru allir aðrir sjúkdómaflokkar enn í gangi. Það sem gerðist í síðasta faraldri er að við lögðum öll önnur verkefni til hliðar nema bráð verkefni, og létum hitt bíða. Rannsóknir austan- og vestanhafs hafa sýnt það að aðrir sjúklingar biðu skaða af,“ segir Ragnar.

„Þú getur séð það fyrir þér að ef það veikjast tíu manns í einu eða það kemur hópslys sem þarf á bráðri þjónustu að halda – það þarf ekki mikið til svo út af bregði. Við dönsum línudans á hverjum degi og það höfum við gert í áratugi.“

Aðrir sjúklingar eiga líka rétt á nauðsynlegri þjónustu

Ragnar nefnir að eftir fyrstu bylgju faraldursins hér á landi hafi komið í ljós að margir aðrir sjúklingar biðu með sínar meðferðir vegna stöðunnar í samfélaginu. Það sé ekki sanngjarnt að veikir einstaklingar þurfi að bíða svo lengi eftir því að fá nauðsynlega hjálp, heldur þurfi heilbrigðiskerfið að geta sinnt öllum þeim sem þurfa á aðstoð að halda.

„Ég hef til dæmis aldrei hafið jafn margar krabbameinslyfjameðferðir á jafn skömmum tíma. Allt þetta fólk hélt í sér, og það er ekki gott. Þeir sjúklingar eiga líka rétt á því að fá rétta þjónustu á réttum tíma.“

Heilbrigðisstarfsmenn hafa margir hverjir skráð sig í bakvarðarsveitir eftir að kórónuveirufaraldurinn hófst hér á landi og margir biðlað til landsmanna að fylgja fyrirmælum þríeykisins. Ragnar segir einhug vera innan stéttarinnar, enda séu ráðleggingarnar ekki settar fram af ástæðulausu.

„Við njótum þess á Íslandi að eiga ótrúlega mikið af góðu fagfólki; sjúkraliðum, hjúkrunarfræðingum, læknum, röntgentæknum, vísindamönnum og allt þetta fólk, sem við bráðar aðstæður getur bætt við sig verkefnum. En maður getur ekki ímyndað sér að þetta sé ótæmanleg auðlind sem er hægt að ganga á endalaust. Þetta er takmörkuð auðlind sem við verðum að nýta vel og skynsamlega, því þetta er fyrst og fremst fólk,“ segir Ragnar.

Mikið hefur mætt á heilbrigðisstarfsfólki undanfarna mánuði.Vísir/Vilhelm

„Þetta gæti verið einhver nálægt manni“ 

Ríflega fimm hundruð manns hafa greinst með kórónuveiruna síðastliðna viku og liggja nú 23 á Landspítala. Þrír eru á gjörgæslu í öndunarvél en síðustu daga hafa um sex sjúklingar lagst daglega inn á spítala. Búist er við því að þeim fjölgi á næstunni.

Ragnar segir greinilegt að þriðja bylgja faraldursins verði erfið viðureignar. Eitthvað væri breytt í hegðun samfélagsins sem gerði það að verkum að veiran væri í svo mikilli dreifingu en hann hvetur fólk til þess að finna þá samstöðu sem var í vor.

„Við verðum að vera saman í liði til þess að leysa þetta gríðarstóra vandamál sem er svo miklu stærra en maður sjálfur. Við verðum að sjá þessi sameiginlegu markmið og fara að þeim.“

Hann segir aðgerðirnar miða að því að Landspítalinn geti sinnt þeim sem þurfa aðstoð og nýta það svigrúm sem væri til staðar. Líkt og áður sagði myndi það hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér ef útbreiðslan yrði óheft.

„Við höfum skorið svo naumt niður að það er ekki sveigjanleiki til þess að takast á við svo stórt áfall. Við eigum ekki fyrir því að vera með þúsund rúm laus, það væri bara stórkostleg sóun ef við værum alltaf að búast við því að fjöldi stórslysa myndu eiga sér stað á hverju á.“

Þá minnir hann á að á bak við tölfræðina sé fólk og það væri þess virði að vernda það. „Maður áttar sig ekki á því að þetta gæti verið einhver nálægt manni. Ég sannfærður um að Brynjar sé góður maður og að hann vilji það besta, en hann áttar sig ekki á því að þetta gæti verið hann. Hann gæti verið að reikna sig inn í dæmið.“


Tengdar fréttir

„Mig langar til að lifa lengur“

Sigurður G. Tómasson segist í áhættuhópi en Brynjar Níelsson segir þetta ekki eingöngu snúast um hans heilsufar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×