Innlent

Vísuðu ákvörðun um nafnið Múlaþing til næsta fundar

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Egilsstöðum.
Frá Egilsstöðum. Vísir/Vilhelm Gunnarsson.

Nýkjörin sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar samþykkti á fyrsta fundi sínum á Hótel Héraði á Egilsstöðum í gær að vísa ákvörðun um nýtt nafn sveitarfélagsins til næsta fundar. Þetta kemur fram í fundargerð.

Fyrir lágu niðurstöður nafnakönnunar fyrir sveitarfélagið sem gerð var samhliða forsetakosningum í sumar, ásamt umsögn Örnefnanefndar og athugasemdum frá Sigurjóni Bjarnasyni, formanni Sögufélags Austurlands. Lagði Stefán Bogi Sveinsson, B-lista, fram eftirfarandi tillögu:

„Með vísan til niðurstöðu nafnakönnunar, sem fram fór þann 27. júní, og með hliðsjón af lögbundinni umsögn örnefnanefndar, samþykkir sveitarstjórn að nýtt sameinað sveitarfélag hljóti nafnið Múlaþing.“

Að lokinni umræðu bar Gauti Jóhannesson, D-lista, nýkjörinn forseti sveitarstjórnar, upp þá tillögu að ákvörðun um nafn skyldi vísað til síðari umræðu á aukafundi sveitarstjórnar, sem halda á næstkomandi miðvikudag, 14. október. Var það gert í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga um að tvær umræður þurfi í sveitarstjórn um mikilvægustu ákvarðanir og var tillagan samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Gauti Jóhannesson var kjörinn forseti sveitarstjórnar. Hann var sveitarstjóri á Djúpavogi og leiddi lista sjálfstæðismanna í kosningunum.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Á þessum fyrsta fundi var kosið í embætti, stjórnir og nefndir. Var Gauti samhljóða kjörinn forseti sveitarstjórnar og Stefán Bogi Sveinsson, B-lista, fyrsti varaforseti, en Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa myndað meirihluta. Harpa Svavarsdóttir, D-lista, var kjörinn formaður byggðaráðs.

Samþykkt var að ráða Björn Ingimarsson, bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs, sem sveitarstjóra með tíu atkvæðum en einn sat hjá. Þá kaus sveitarstjórn fulltrúa í heimastjórnir gömlu sveitarfélaganna.

Nýja sveitarstjórnin samþykkti einnig að sameina vatnsveitur og fráveitur Borgarfjarðarhrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar og Djúpavogshrepps og færa þær undir Hitaveitu Egilsstaða og Fella ehf, ásamt hitaveitu Djúpavogshrepps.

Nafnið Múlaþing er rakið til Þingmúla í Skriðdal, sem Múlasýslur draga nafn sitt af, en hér má fræðast nánar um þingstaðinn forna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×