Innlent

Alltaf hætta á ferðum en gott veður hjálpaði til

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigríður með Auði í togi á leið til Djúpavogs í nótt.
Sigríður með Auði í togi á leið til Djúpavogs í nótt. Ingi Ragnarsson

Fjórir skipverjar á línubátnum Auði Vésteins fóru strax um borð í björgunarbát eftir að Auður tók niður á grynningu austur af Papey í gærkvöldi. Formaður björgunarsveitarinnar Bárunnar á Djúpavogi segir alltaf hættu á ferð þegar skip stranda en gott veður hafi hjálpað til á vettvangi.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst tilkynning um slysið laust fyrir klukkan níu í gærkvöldi. Línubáturinn Vésteinn var á næstu grösum og fór strax af stað auk þess sem Sigríður, bátur fiskeldis Austfjarða, lagði í hann frá Stöðvarfirði með björgunarsveitarfólk um borð auk áhafnar.

Frá aðgeðrum á Auði í gær þar sem verið er að dæla sjó úr skipinu.Ingi Ragnarsson

Skipverjarnir á Auði fóru strax um borð í Véstein en það kom í hlut Sigríðar að draga Auði á Djúpavog. Þar var báturinn hýfður upp á bryggju með stórum krana. Skemmdirnar á skipinu eru greinilegar og hefur peran brotnað af, að sögn Inga.

Báturinn var verulega framsiginn því sjór flæddi inn að framan. Stöðugt var dælt úr skipinu svo það hélst á floti alla leið til Djúpavogs.

Auður Vésteins komin upp á bryggju á Djúpavogi.Guðmundur Már Karlsson

„Þeir fóru strax í bátana og það var gott veður. Auðvitað er einhver hætta á ferðum þegar menn sigla á og stranda. En það var fljótt vitað að ekki væri spurning um mannbjörg,“ segir Ingi Ragnarsson, formaður Bárunnar, sem stjórnaði björgunaraðgerðum úr landi.

Auður og Vésteinn eru línubátar frá Einhamri í Grindavík.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×