Íslenski boltinn

Hikaði ekki við að velja Birki Má aftur í landsliðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Birkir Már Sævarsson hefur skorað fjögur mörk í síðustu þremur leikjum Vals í Pepsi Max-deild karla.
Birkir Már Sævarsson hefur skorað fjögur mörk í síðustu þremur leikjum Vals í Pepsi Max-deild karla. vísir/vilhelm

Birkir Már Sævarsson, sem hefur leikið sérlega vel með Val í Pepsi Max-deildinni á undanförnum vikum, var valinn í íslenska landsliðshópinn sem mætir Rúmeníu, Danmörku og Belgíu í þessum mánuði.

Eftir að hafa átt fast sæti í byrjunarliði Íslands um langt árabil missti Birkir sæti sitt í íslenska landsliðshópnum sumarið 2019. Hann hafði þá spilað fyrstu tvo leikina í undankeppni EM en kom ekki meira við sögu í keppninni, þó hann væri reyndar á varamannabekknum í tveimur leikjum í október það ár. Þá var hann í „B-landsliðinu“ sem lék vináttulandsleiki við El Salvador og Kanada í janúar.

„Við teljum að hann sé góður fyrir hópinn í þessum leikjum. Við þurfum alltaf að líta á það hverjum við mætum og hvaða möguleika við höfum,“ sagði landsliðsþjálfarinn Erik Hamrén í samtali við Vísi eftir blaðamannafundinn þar sem landsliðshópurinn var kynntur.

„Birkir hefur leikið vel í Pepsi Max-deildinni, býr yfir mikilli reynslu og þess vegna völdum við hann.“

Á blaðamannafundinum sagði Hamrén að Birkir hafi aldrei dottið út úr myndinni hjá sér frekar en aðrir leikmenn og hann hafi aldrei sagst vera hættur með landsliðinu. 

Birkir er þriðji leikjahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi með 92 landsleiki. Sá fyrsti kom 2007.


Tengdar fréttir

Ef kallið kemur mæti ég glaður og geri mitt allra besta

Birkir Már hefur átt frábært sumar í hægri bakverðinum hjá Val sem stefnir hraðbyr að Íslandsmeistaratitlinum í knattspyrnu. Hann segist tilbúinn ef kallið kemur frá landsliðsþjálfurum Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×