Fótbolti

Hamrén náði samkomulagi við Heimi Hallgríms um Aron Einar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Aron Einar Gunnarsson með son sinn eftir einn landsleikinn á Laugardalsvelli.
 Aron Einar Gunnarsson með son sinn eftir einn landsleikinn á Laugardalsvelli. Getty/Oliver Hardt

Erik Hamrén, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, gerði samkomulag við forvera sinn til að fá íslenska landsliðsfyrirliðann í Rúmeníuleikinn.

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, verður með í leiknum mikilvæga á móti Rúmeníu í umspili fyrir EM næsta sumar.

Erik Hamrén sagði frá því á blaðamannafundi í dag að hann hefði samið við Heimir Hallgrímsson, fyrrum landsliðsþjálfara Íslands, um að fá Aron Einar til móts við íslenska landsliðið.

Heimir Hallgrímsson er núna þjálfari Arons Einars hjá Al Arabi í Katar.

Aron Einar á að vera að spila með Al Arabi í Katar því liðið er að spila leiki í þessu komandi landsleikjahléi. FIFA gaf Al Arabi leyfi fyrir því að bann Aroni Einari að fara til Íslands en sem betur fer mun landsliðsfyrirliðinn mæta.

Hamrén samdi við Heimi og Al Arabi fyrir nokkru um að Aron myndi spila gegn Rúmeníu og hugsanlega Danmörku.

„Ég veit ekki hvort hann mætir Danmörku en við höfum samið um Rúmeníu. Og sumir aðrir munu ekki vera með í öllum leikjum. Jói er auðvitað einn þeirra," sagði Hamrén og var þar að tala um Jóhann Berg Guðmundsson.

Al Arabi gaf Aroni Einari Gunnarssyni ekki leyfi til að þess að koma í leikina við England og Belgíu í september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×