Erlent

Ísrael og Líbanon hefja viðræður um umdeilt hafsvæði

Samúel Karl Ólason skrifar
Deilur ríkjanna snúast um hafsvæði þar sem finna má náttúrugas.
Deilur ríkjanna snúast um hafsvæði þar sem finna má náttúrugas. AP/Ariel Schalit

Yfirvöld í Ísrael og Líbanon hafa samþykkt að hefja viðræður sem ætlað er að binda enda á deilur um lögsögu ríkjanna. Nágrannaríkin tvö hafa háð nokkrar styrjaldir í gegnum tíðina og eru tæknilega séð enn í stríði og deila einnig um landamæri.

Forseti þings Líbanon, sem gengur nú í gegnum mikla efnahags- og stjórnmálakrísu, staðfesti viðræðurnar í dag

Bandarískir erindrekar munu miðla á milli deiluaðilanna en viðræður eru eingöngu um lögsögu ríkjanna, ekki landamæri. Bandaríkin hafa reynt að ná erindrekum ríkjanna að samningaborðinu frá 2010. Í júlí náðist samkomulag um hvernig viðræðurnar munu fara fram.

Í frétt Times of Israel segir að ekki sé um beinar viðræður sé að ræða heldur muni erindrekar ríkjanna ræða saman í gegnum starfsmenn Sameinuðu þjóðanna.

Bæði ríkin gera tilkall til um 860 ferkílómetra svæðis í Miðjarðarhafinu. Bæði ríkin vilji nýta náttúrugaslindir sem talið er að megi finna undir botni þessa umdeilda hafsvæðis.

Samkvæmt frétt Reuters er búist við að viðræðurnar hefjist 9. október.

Tvö arabaríki, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Barein, samþykktu í síðasta mánuði að opna á formleg samskipti við Ísrael. Þar miðluðu Bandaríkin einnig málum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×