Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - FH 1-1 | Aftur skoruðu Stjörnumenn á ögurstundu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hilmar Árni Halldórsson skorar jöfnunarmark Stjörnunnar.
Hilmar Árni Halldórsson skorar jöfnunarmark Stjörnunnar. vísir/hulda margrét

Hilmar Árni Halldórsson tryggði Stjörnunni stig gegn FH þegar hann jafnaði á 93. mínútu í leik liðanna á Samsung-vellinum í kvöld. Lokatölur 1-1. Endirinn var dramatískur eins og í fyrri leik liðanna í Pepsi Max-deild karla þar Halldór Orri Björnsson tryggði Stjörnumönnum sigur með marki í uppbótartíma.

Pétur Viðarsson kom FH yfir á 54. mínútu og fyrsta mark hans í sumar virtist ætla að duga gestunum til sigurs. En Hilmar Árni var á öðru máli og jafnaði á elleftu stundu. Hann skoraði sigurmark Stjörnunnar gegn HK í síðustu umferð og hefur því tryggt Garðbæingum fjögur stig í síðustu tveimur leikjum.

FH er í 2. sæti deildarinnar með 33 stig en Stjarnan í því fjórða með 28 stig. Stjörnumenn hafa leikið einum leik færra en FH-ingar.

Fyrri hálfleikurinn í leiknum í kvöld var afar tíðindalítill. Stjörnumenn voru ívið sterkari en sköpuðu sér engin afgerandi færi.

Gestirnir héldu sig að mestu til hlés og áttu ekki margar sóknir. Björn Daníel Sverrisson, fyrirliði FH-inga, komst næst því að skora í fyrri hálfleik en Haraldur Björnsson varði frá honum.

Það lifnaði heldur betur yfir leiknum í seinni hálfleik. Stjarnan byrjaði hann vel og fékk tvö góð færi í upphafi hans. Fyrst skaut Heiðar Ægisson framhjá og svo átti Emil Atlason slakt skot beint á Gunnar Nielsen í úrvalsfæri.

Á 54. mínútu kom Pétur FH yfir með skalla eftir frábæra aukaspyrnu Þóris Jóhanns Helgasonar af hægri kantinum. Markið kom gegn gangi leiksins en Stjörnumenn voru mjög kraftmikil í upphafi seinni hálfleiks.

Skömmu síðar slapp Steven Lennon í gegnum vörn Stjörnunnar en Haraldur Björnsson varði í tvígang frábærlega frá Skotanum.

Stjörnumenn sóttu stíft það sem eftir lifði leiks. Heiðar fékk annað gott færi á 77. Mínútu en aftur varði Gunnar. Varamaðurinn Morten Beck Guldsmed var svo nálægt því að gulltryggja sigur FH þremur mínútum fyrir leikslok en brást bogalistinn.

Pressa Stjörnunnar bar loks árangur þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Heiðar átti þá fyrirgjöf frá hægri á fjærstöngina þar sem Hilmar Árni skilaði boltanum yfir línuna. Lokatölur 1-1.

Pétur Viðarsson fagnar marki sínu.vísir/hulda margrét

Af hverju varð jafntefli?

Eitt stig var það minnsta sem Stjarnan átti skilið út úr leiknum. Þeir voru heilt yfir sterkari en misstu einbeitinguna í föstu leikatriði í upphafi seinni hálfleiks og gátu svo þakkað Haraldi að lenda ekki 0-2 undir skömmu síðar. Vörslur hans frá Lennon reyndust mikilvægar þegar uppi var staðið.

Stjörnumenn héldu áfram að puða, gáfust ekki upp og skoruðu loks verðskuldað jöfnunarmark.

Hverjir stóðu upp úr?

Báðir markverðirnir voru góðir og eins og áður sagði voru vörslur Haraldar afar mikilvægar. Heiðar var síógnandi á hægri kantinum hjá Stjörnunni, komst í tvö góð færi og lagði upp jöfnunarmarkið.

Guðmundur Kristjánsson var vel á verði í miðri vörn FH og við hlið hans var Pétur traustur og skoraði gott skallamark. Þórir Jóhann átti fínan leik á miðju FH og gaf frábæra stoðsendingu á Pétur.

Björn Berg Bryde var góður í vörn Garðbæinga og virðist vera kominn til að vera þar. Guðjón Pétur Lýðsson átti líka flottan leik á miðjunni.

Hvað gekk illa?

Spil liðanna og þá sérstaklega FH-inga gekk frekar illa í fyrri hálfleik. Þá skiluðu fjölmargar hornspyrnur Stjörnunnar ekki neinu og það sætir furðu að lið með jafn góða spyrnumenn og Hilmar Árna og Guðjón Pétur skapi ekki meira í uppsettum atriðum.

Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga leik á sunnudaginn. Stjarnan fær botnlið Fjölnis í heimsókn á meðan FH sækir ÍA heim.

Rúnar Páll: Áttum skilið að vinna

Heiðar Ægisson í færi.vísir/hulda margrét

Rúnar Páll Sigmundsson, annar þjálfara Stjörnunnar, var ánægður að fá stig gegn FH í kvöld. 

„Heilt yfir er ég ánægður með spilamennsku okkar manna. Við áttum skilið að jafna þetta. Við vorum mjög öflugir,“ sagði Rúnar Páll í leikslok.

Honum fannst Stjörnumenn eiga skilið að vinna leikinn á Samsung-vellinum í kvöld.

„Já, mér fannst það. Við fengum fín og opin færi eins og FH-ingarnir. En mér fannst við heilt yfir betri í dag og áttum skilið að vinna. Við sýndum karakter með því að jafna,“ sagði Rúnar Páll.

„Þetta var erfitt en við fengum frábær upphlaup í seinni hálfleik sem við áttum að nýta betur. Við fengum mjög góð færi.“

Stjörnumenn byrjuðu seinni hálfleikinn betur en FH-ingar skoruðu svo gegn gangi leiksins. Garðbæingar sváfu þá á verðinum í aukaspyrnu Hafnfirðinga.

„Svona leikir vinnast á svona atriðum. Við lögðum hart að okkur að jafna leikinn en þú þarft að halda einbeitingu í þessum föstu leikatriðum. Menn eiga að dekka sína menn samkvæmt því sem lagt er upp með en það klikkaði,“ sagði Rúnar Páll.

Skömmu eftir mark FH slapp Steven Lennon í gegnum vörn Stjörnunnar en Haraldur Björnsson varði mjög vel og kom sínum mönnum til bjargar.

„Halli varði frábærlega og hann er búinn að sýna það í sumar að hann er besti markvörður deildarinnar,“ sagði Rúnar Páll að lokum.

Eiður Smári: Allt annað að sjá til okkar í seinni hálfleik

Þórir Jóhann Helgason með Elís Rafn Björnsson á hælunum.vísir/hulda margrét

Eiður Smári Guðjohnsen, annar þjálfara FH, var mun ánægðari með seinni hálfleikinn hjá sínum mönnum en þann fyrri.

„Ég var mjög sáttur með seinni hálfleikinn hjá okkur en ekki alveg nógu ánægður með þann fyrri. Það tók okkur aðeins of langan tíma að finna okkar tempó og gefa á næsta mann. Það virkaði ekki nógu vel. En það var allt annað að sjá til okkar í seinni hálfleik,“ sagði Eiður Smári eftir leik.

Hann segir að FH-ingar hafi ekki framkvæmt grunnatriðin rétt í fyrri hálfleik.

„Það vantaði meiri gæði. Við búum yfir mun meiri gæðum en við sýndum í fyrri hálfleik. Auðvitað geta öll lið átt slaka kafla en mér fannst oft á tíðum einfaldir hlutir klikka. Einfaldar sendingar og það var aðeins of auðvelt að verjast gegn okkur,“ sagði Eiður Smári.

FH komst yfir í upphafi seinni hálfleiks og það virtist ætla að duga til sigurs. En Stjarnan jafnaði í blálokin.

„Við stóðum varnarleikinn fínt en auðvitað treystum við á markvörðinn okkar og hann var algjörlega frábær í dag. Svo sköpuðum við okkur aldeilis færi til að klára leikinn,“ sagði Eiður Smári.

„Mér fannst við pressa boltann maður á mann miklu betur í seinni hálfleik en þeim fyrri. En Stjarnan er með öflugt lið og mun alltaf skapa sér færi.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira