Erlent

Hafa á­hyggjur af sýr­lenskum mála­liðum í ná­granna­erjum

Kjartan Kjartansson skrifar
Armenskur hermaður hleypir af fallbyssu í átökum Armena og Asera um Nagorno-Karabakh.
Armenskur hermaður hleypir af fallbyssu í átökum Armena og Asera um Nagorno-Karabakh. AP/Spian Gyulumyan/armenska varnarmálaráðuneytið

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hefur áhyggjur af því að tyrknesk stjórnvöld sendi nú sýrlenska málaliða til að leggja Aserum lið í átökum þeirra við nágranna sína Armena um fjallahéraðið Nagorno-Karabakh. Tyrkir styðja Asera í átökunum en neita því að hafa sent erlenda málaliða þangað.

Í brýnu sló á milli armenska og aserska hersins um helgina við Nagorno-Karabakh, lundlukt svæði innan Aserbaídsjan sem armenskir aðskilnaðarsinnar stjórna. Tugir manna hafa fallið í skærum síðustu daga.

Tyrknesk stjórnvöld hafa lýst yfir vilja til að veita Aserum aðstoð óskir þeir hennar. Macron ræddi við Vladímír Pútín, forseta Rússlands, í síma um ástandið í gærkvöldi. Lýstu þeir báðir áhyggjum af því að sýrlenskir málaliðar hefðu verið sendir frá Tyrklandi til Nagorno-Karabakh, að sögn AP-fréttastofunna.

Armenía og Aserbaídsjan hafa lengi deilt um yfirráð í Nagorno-Karabakh í Kákakusfjöllum en stillt var til friðar með samkomulagi árið 1994. Rússar, Frakkar og Bandaríkjamenn hafa haft frumkvæði að því að miðla málum á milli ríkjanna síðan.

Macron segir að þeir Pútín hafi verið sammála um að hvetja til stillingar og að vinna að því að ná vopnahléi. Forseti Aserbaídsjan setur það sem skilyrði að Armenar dragi sig til baka frá héraðinu. Armenskir embættismenn hafa sakað Tyrki um aðild að átökunum en því hafna þeir.


Tengdar fréttir

Koma saman til að ræða deilu Asera og Armena

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mun koma saman í dag til að ræða deilu Asera og Armena en átök hafa blossað upp enn á ný í héraðinu Nagorno Karabakh og liggja tugir eða hundruð í valnum.

Setja her­lög bæði í Armeníu og Aserbaídsjan

Átök armenskra og aserskra hersveita á landamærunum héldu áfram í nótt. 23 manns hið minnsta féllu í átökunum í gær og hafa herlög tekið gildi í báðum ríkjum. Alls hafa nú 31 maður fallið í átökum síðustu daga.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.