Fótbolti

Guðbjörg stefndi á Svíaleikinn áður en börnin reyndust tvö

Sindri Sverrisson skrifar
Guðbjörg Gunnarsdóttir varði mark Íslands á EM 2017. Liðið stefnir á að komast á EM í Englandi sem fram fer 2022.
Guðbjörg Gunnarsdóttir varði mark Íslands á EM 2017. Liðið stefnir á að komast á EM í Englandi sem fram fer 2022. vísir/getty

Það styttist í að Guðbjörg Gunnarsdóttir landsliðsmarkvörður í fótbolta snúi aftur á völlinn með liði sínu Djurgården eftir að hafa eignast tvíbura fyrir átta mánuðum.

Guðbjörg er reyndar þegar búin að spila tvo leiki með U19-liði Djurgården og segir það hafa gengið vel. „Ég er kannski komin í 75-80% af mínu hæsta getustigi,“ segir Guðbjörg við Fotbollskanalen.

„Þetta hefur gengið nokkuð vel. Betur en búist var við. Ég byrjaði á að taka markmannsæfingar og fyrir fjórum vikum fór ég að taka fullan þátt í æfingum með A-liðinu. Maður verður jú að byrja einhvers staðar. Kannski var þetta svolítið snemmt en ég er núna búin að spila tvo leiki með stelpunum í U19 og það hefur gengið vel. Betur en ég bjóst við,“ segir Guðbjörg.

Guðbjörg segir óljóst hvenær hún byrji aftur að spila í sænsku úrvalsdeildinni. Hún hafi rætt við þjálfarann Pierre Fondin fyrir fjórum vikum og sagst þurfa sex vikur áður en að það kæmi til greina. Æfingarnar og U19-leikirnir hafi hins vegar gengið vel og hún sé sífellt að verða betri.

Ómögulegt að keppa við fólk sem fær að sofa

Ísland gerði 1-1 jafntefli við Svíþjóð á Laugardalsvelli fyrir viku, í undankeppni EM. Liðin mætast að nýju í Gautaborg eftir mánuð og ekki er útilokað að þá verði Guðbjörg farin að spila fyrir aðallið Djurgården. Liðið leikur fjóra leiki fram að landsleiknum. Guðbjörg segir þó að kannski sé raunhæfara að stefna bara á næsta tímabil.

„Ég hef ekki sett mér neitt markmið núna um það hvenær ég sný tilbaka. Þegar ég hélt að við værum að fara að eignast eitt barn þá stefndi ég að því að vera tilbúin fyrir Ísland-Svíþjóð, en það breyttist jú aðeins,“ segir Guðbjörg sem fæddi ekki bara eitt heldur tvö börn, með tilheyrandi aukaálagi utan vallar síðustu mánuði.

„Stærsta vandamálið mitt er svefnleysið. Ég hef sagt við aðra að það sé nánast ómögulegt að vera að keppa við fólk sem fær að sofa,“ segir Guðbjörg og hlær. Hún bætir við:

„Ef ég hefði eignast eitt barn sem hefði sofið vel þá tel ég að ég væri þegar byrjuð að spila aftur núna. En annar tvíburanna vaknar á hverri nóttu, á hverri klukkustundu. Þetta er því erfitt. Stundum er ég dauðþreytt þegar ég mæti á æfingu og þá spyr maður sig; „Til hvers er ég að þessu?“ Ég hef því ekki fundið rétta jafnvægið til að spila á hæsta stigi ennþá.“


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.