Innlent

Katrín og Svandís glaðar fyrir hönd egypsku fjölskyldunnar

Tryggvi Páll Tryggvason og Birgir Olgeirsson skrifa
svandiskat

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segjast báðar hafa glaðst fyrir hönd Khedr-fjölskyldunnar eftir að henni var veitt hæli af mannúðarástæðum hér á landi í gær.

Svandís var spurð út í það að loknum ríkisstjórnarfundi í dag hvernig hún hafi brugðist við tíðindunum þegar þau bárust í gær. Líkt og sjá má í myndbandinu hér að neðan var svar hennar stutt og laggott:

Ég samgladdist þeim

Katrín fékk sömu spurningu að loknum ríkisstjórnarfundi og var svar hennar af svipuðum toga og svar Svandísar.

„Ég gladdist fyrir þeirra hönd,“ sagði Katrín sem sagðist einnig ekki hafa neitt neinum þrýstingi á kerfið í þessu máli.

Ákvörðun kærunefndar útlendingamála um að veita Khedr-fjölskyldunni egypsku dvalarleyfi hér á landi er byggð á því að of langur tími hafi liðið frá því að sótt var um alþjóðlega vernd þar til endanleg niðurstaða lá fyrir í málinu.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði að loknum ríkisstjórnarfundi í dag að honum sýndist sem svo að mikil þörf væri á því að endurskoða allt regluverk þessa málaflokks, kerfið hafi brugðist þar sem málsmeðferð væri ekki gegnsæ, skiljanleg né byggi hún á skýrum reglum.

Spurð út í þessi orð Bjarna sagði Katrín að kerfið sem um ræddi væri byggt á lögum sem samþykkt hafi verið í mikilli þverpólitískri sátt árið 2016, mótatkvæðalaust fyrir atbeina fulltrúa allra flokka á þingi. Hins vegar væri það að skoða þyrfti kerfið með heildstæðum hætti til að tryggja að markmið laganna væru uppfyllt.

„Það er mín skoðun að við þurfum að fara yfir framkvæmd laganna með heildstæðum hætti, skoða það hvað við getum gert betur þannig að við séum að uppfylla markmið laganna sem eru mannúð og skilvirkni í málefnum útlendinga.“


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.