Innlent

Egypska fjölskyldan fær dvalarleyfi

Nadine Guðrún Yaghi og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Khedr-fjölskyldan hefur verið í felum að undanförnu en getur nú um frjálst höfuð strokið.
Khedr-fjölskyldan hefur verið í felum að undanförnu en getur nú um frjálst höfuð strokið. visir/nadine guðrún

Egypska Khedr fjölskyldan fékk í dag dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kærunefnd útlendingamála féllst á sjónarmið fjölskyldunnar um endurupptöku fyrr í dag. Þetta segir Magnús D. Norðdal, lögmaður fjölskyldunnar. 

„Þetta er sigur fyrir íslenskt samfélag enda hefði fyrirhuguð brottvísun orðið ævarandi svartur blettur í sögu þjóðarinnar. Mælikvarði á gildi hvers samfélags er hvernig það kemur fram við sína viðkvæmustu hópa og þar eru börn fremst í flokki,“ segir Magnús. 

Hann segir að kærunefnd útlendingamála hafi fallist á endurupptöku málsins og lagt það fyrir Útlendingastofnun að veita fjölskyldunni dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kærunefndin hafi vísað til þess að kynfæralimlestingar væru áhættuatriði yrði fjölskyldan send aftur til Egyptalands, atriðið væri nýtt á borði kærunefndar og því hafi málið verið tekið upp að nýju. 

„Þar af leiðandi endurupptaka þeir málið, málsmeðferðartíminn lengist og nær því lágmarksviðmiði sem þarf að ná til þess að geta fengið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða,“ segir Magnús í samtali við Vísi.

„Almenningur allur og félagasamtök á borð við Solaris og No Borders tóku afstöðu með fjölskyldunni og sýndu það í verki. Fjölskyldan kann öllum þeim sem studdu hana miklar þakkir,“ segir Magnús. 

Hann segir að það sé óskandi að málið verði til þess að ryðja brautina fyrir önnur börn á flótta og að Útlendingastofnun breyti verklagi sínu með tilliti til mats á hagsmunum barna. „Slíkt mat á ávallt að vera sjálfstætt og heildstætt og þannig úr garði gerð að hægt sé að taka ákvörðun í hverju máli sem er viðkomandi barni fyrir bestu,“ segir Magnús og bætir við að réttlætið hafi sigrað. 


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.