Enski boltinn

Solskjær vildi ekki tjá sig sérstaklega um Lindelöf

Ísak Hallmundarson skrifar
Lindelöf í leiknum í gær.
Lindelöf í leiknum í gær. getty/Ash Donelon

Victor Lindelöf, leikmaður Manchester United og sænska landsliðsins, hefur fengið sinn skerf af gagnrýni í gegnum tíðina. 

Lindelöf hefur nú spilað í þrjú ár í vörn Manchester United og var hann samkvæmt venju í byrjunarliði United í 1-3 tapi gegn Crystal Palace í gær. Svíinn sýndi ekki sýnar bestu hliðar í leiknum og það má færa rök fyrir því að hann hafi gert mistök sem leiddu til marks í öllum mörkum Palace.

Ole Gunnar Solskjær, þjálfari Man Utd, hefur hinsvegar sýnt síðan hann tók við liðinu að hann hafi mikla trú á Lindelöf og valdi hann í byrjunarliðið í öllum leikjum liðsins í ensku úrvalsdeildinni í fyrra, að undanskildum þremur leikjum þar sem hann var meiddur. Solskjær vildi ekki klína tapinu í gær sérstaklega á Svíann.

„Það þurfa allir leiki og tíma til að verða aftur upp á sitt besta, ég held við munum bæta okkur. Í gær vörðumst við ekki eins og við hefðum átt að gera en ég vil ekki benda á einhvern stakan leikmann,“ sagði Solskjær.

VAR myndbandsdómgæslan dæmdi vítaspyrnu fyrir Crystal Palace á 72. mínútu í stöðunni 0-1 fyrir Palace. Jordan Ayew skaut boltanum í hendina á Victor Lindelöf af stuttu færi. David De Gea varði síðan vítaspyrnu Ayew en þá þurfti að taka spyrnuna aftur, VAR sagði De Gea hafa farið of snemma af marklínunni. Wilfried Zaha fór þá á punktinn og skoraði.

„Mér fannst þetta ekki víti, boltinn var svo nálægt Vic, hvar átti hann að setja hendurnar? 

Hinsvegar var ákvörðunin um að taka vítið aftur rétt ef þú fylgir reglunum, David var kominn með hælanna einn sentímetra af línunni, þetta var hörð ákvörðun en líklega rétt samkvæmt reglunum,“ sagði Solskjær að lokum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.