Þeir veitingastaðir sem hafa verið til skoðunar í tengslum kórónuveirusmit undanfarinna daga hafa mjög óljósa tengingu við tilfelli og þykir ekki ástæða til að rekja frekar útsetta einstaklinga í tengslum við þá. Tveir veitinga- og skemmtistaðir hafa greint frá því að smit komu upp á þeirra stöðum.
Í tilkynningu frá almannavörnum segir að eigendur veitinga- og skemmtistaða hafi unnið náið með smitrakningaeyminu en meta þurfi í hvert skipti hvort það þjóni almannahagsmunum að kalla stóran hóp viðskiptavina í sýnatöku. Eftirleiðis verði greint frá nöfnum staða ef það þykir aðstoða við að ná utan um smit.
„Í hvert og eitt skipti, þar sem mörg smit koma upp í tengslum við einn stað, þarf að meta hvort það þjóni hagsmunum í baráttunni við veiruna að kalla stóran hóp viðskiptavina í sýnatöku, þá sérstaklega þegar álagið í smitrakningu er jafn mikið og það er þessa stundina.
Á fimmtudag greindu sóttvarnayfirvöld frá því að margir hefðu smitast á barnum Irishman við Klapparstíg föstudaginn 11. september. Voru allir sem sótt höfðu barinn frá 16 til 23 þann dag beðnir um að fara í skimun. Í dag greindi veitingastaðurinn Brewdog frá því að starfsmaður hefði greinst með veiruna og sá hefði líklega smitast af viðskiptavini.