Starfsmaður á veitingastaðnum BrewDog í miðbæ Reykjavíkur hefur greinst með kórónuveiruna. Á fimmtudag höfðu forsvarsmenn veitingastaðarins fengið upplýsingar frá smitrakningateyminu að að hugsanlega hefði smitaður einstaklingur komið á staðinn fyrir rúmri viku síðan.
Greint er frá þessu á Facebook-síðu BrewDog. Eftir símtal frá smitrakningateymi hafi allt starfsfólk verið sent í skimun í gær og var aðeins einn starfsmaður smitaður líkt og áður sagði.
Starfsmaðurinn sem smitaðist var á vakt bæði föstudag og laugardag síðustu helgi. Hann hefur ekki komið aftur inn á staðinn síðan en grunur leikur á um að hann hafi smitast af gesti þegar hann var við störf.
Þeir sem heimsóttu staðinn dagana 11. og 12. september eru hvattir til þess að fara í skimun.
„Í kjölfar þeirrar vitneskju var unnið þétt með smitrakningateyminu og höfum við fengið hrós frá þeim fyrir góða samvinnu. Allir starfsmenn voru sendir í skimun ásamt þeim viðskiptavinum sem smitrakningateymið hafði samband við,“ segir í tilkynningu BrewDog.
Stór hluti smita tengjast skemmtistöðum
Um þriðjungur þeirra smita sem greindust í gær má rekja til skemmtistaða á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Öllum skemmtistöðum og krám á höfuðborgarsvæðinu hefur verið lokað tímabundið í fjóra daga, frá því í gær fram til mánudagsins 21. september.
Fyrr í vikunni var greint frá því að nokkur fjöldi smita hafði komið upp hjá viðskiptavinum Irishman Pub í miðbæ Reykjavíkur. Almannavarnir sendu frá sér tilkynningu þar sem gestir staðarins síðasta föstudag voru beðnir um að fara í skimun vegna veirunnar. Snertifletir virtust bera með sér smit, þó svo að gætt væri að sóttvörnum með reglubundnum hætti.
„Þetta eru ekki staðir þar sem fólk er í troðningi heldur situr það á sínum bás og drekkur sinn bjór í rólegheitum, en er síðan smitað. Þess vegna eru það þessir sameiginlegu snertifletir sem er verið að horfa til,“ sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á upplýsingafundi í dag.
„Og þó að sóttvarna sé gætt, borð og hurðahúna þrifnir reglulega, virðist það ekki duga til að koma í veg fyrir smit í gegnum sameiginlega snertifleti.“