Innlent

Segir þriðju bylgju far­aldursins hafna

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands, sem fer fyrir teyminu við HÍ sem vinnur spálíkan um líklega þróun Covid-19 á Íslandi.
Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands, sem fer fyrir teyminu við HÍ sem vinnur spálíkan um líklega þróun Covid-19 á Íslandi. Vísir/Stöð 2

Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands, segir þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins hafna. Smitin sem greinst hafi frá því á fimmtudag hafi farið langt út fyrir spár um aðra bylgju kórónuveiruteymisins hjá háskólanum.

„Veiran hefur hegðað sér í samræmi við spá í næstum tvo mánuði. Hún gerði það líka í fyrstu bylgju frá 28. febrúar inn í miðjan maí. En nú hefur hún stungið okkur laglega af sem þýðir að það hefur eitthvað mikið breyst,“ skrifar Thor í færslu á Facebook.

Spálíkanið yfir aðra bylgju faraldursins. Rauðu punktarnir sýna fjölgun smita síðustu daga.Facebook/Thor Aspelund

Hann segir að nýju smitin séu nú langt út fyrir myndina frá því á fimmtudag og komist ekki einu sinni inn á spálíkanið. Þá þurfi ekki mörg smit til að koma af stað bylgju. Hvert eitt og einasta sem náist að temja með sóttkví og smitvörnum telji.

„Samskipti milli fólks í upphafi skólaárs eru e.t.v. með öðrum takti. Við höfum ekki getað tekið svoleiðis vísbendingar inn í líkan enda þyrftum við þá daglega vöktun á samskiptum í þjóðfélaginu. Eflaust allt hægt en kannski viljum við það ekkert endilega,“ skrifar hann.

Hann segir að nú þurfi að bíða í nokkra daga til þess að sjá hvert þessi bylgja stefni. Vonandi sé svo hægt að kynna spá um framhaldið eftir viku en alveg eins og í fyrstu og annarri bylgju þurfi teymið nokkra daga til að meta aðstæður og búa til spá.

„Hún er ögrandi þessi veira en þetta er ekkert öðruvísi verkefni,“ segir hann.


Tengdar fréttir

Ekki rétt að leita að sökudólgum

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir til skoðunar að grípa til hertra aðgerða vegna faraldurs nýju kórónuveirunnar. Verði það gert, sé markmiðið að kveða niður þessa bylgju eins hratt og auðið er. Einstaklingsbundnar varnir skili þó mestum árangri.

Vill „allt í lás“ næstu vikurnar

Nauðsynlegt er að fara í sömu hörðu aðgerðir og beitt var í vor. Það segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sem segir þann fjölda smita sem greindist í gær til marks að faraldur nýju kórónuveirunnar sé í hröðum vexti hér á landi. Jafnvel í veldisvexti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×