Enski boltinn

„Liverpool er að fá mögulega besta miðjumann heims fyrir fimm milljónir punda á ári“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thiago Alcantara tekur mynd af sér með Meistaradeildarbikarinn eftir sigurinn með Bayern München í ágúst.
Thiago Alcantara tekur mynd af sér með Meistaradeildarbikarinn eftir sigurinn með Bayern München í ágúst. Getty/Michael Regan

Það efast enginn um það að Englandsmeistarar Liverpool eru að fá frábæran leikmann í spænska miðjumanninum Thiago Alacantara og það má sjá á orðum eins knattspyrnusérfræðingsins á Sky Sports.

Kaveh Solhekol, knattspyrnusérfræðingur á Sky Sports, er hreinlega gáttaður á því að Liverpool hafi tekist að landa Thiago Alacantara fyrir ekki meiri pening.

Liverpool kaupir Thiago Alacantara á tuttugu milljónir punda og hann mun gera fjögurra ára samning við félagið til ársins 2024.

„Þetta sýnir hvar Liverpool stendur í fótboltaheiminum á þessari stundu. Við erum að tala um leikmann sem var hjá Bayern München og hann átti eitt ár eftir af samningi sínum. Hann er búinn að vinna sex titla í röð og var að landa Evrópumeistaratitlinum,“ sagði Kaveh Solhekol.

„Bayern setti nýjan fjögurra ára samning á borðið fyrir framan hann og hann ætlaði að skrifa undir hann. Á síðustu stundu skipti hann um skoðun og sagðist þurft nýja áskorun. Sú áskorun er að spila fyrir Liverpool og fyrir Jürgen Klopp. Það sýnir okkur hversu mikið aðdráttarafl Liverpool liðið hefur í dag,“ sagði Solhekol.

„Þegar maður skoðar síðan samninginn. Það var sagt að Liverpool myndi aldrei borga uppgefið verð fyrir Thiago sem voru 30 milljónir evra. Þegar við skoðum samninginn núna þá sjáum við að þetta er í raun ótrúlegur samningur fyrir Liverpool,“ sagði Solhekol.

„Liverpool er að borga tuttugu milljónir punda fyrir fjögur ár af Thiago sem gera fimm milljónir punda á ári. Liverpool er því að fá mögulega besta miðjumann heims fyrir fimm milljónir punda á ári,“ sagði Solhekol.

„Að fá eins góðan leikmann og Thiago fyrir aðeins fimm milljónir punda á ári fær mann til að segja að þetta séu ótrúleg viðskipti hjá Liverpool. Þetta sýnir hversu hátt metið Liverpool er í heimsfótboltanum. Fyrir leikmann að snúa baki við Bayern München og fara til Liverpool eru frábærar fréttir fyrir félagið,“ sagði Solhekol. Það má sjá allt sem hann sagði hér fyrir neðan.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.