Erlent

29 lög­reglu­menn sendir í leyfi fyrir að deila myndum af Hitler og gas­klefum

Atli Ísleifsson skrifar
Húsleit var gerð á fjölda staða í Essen, Mülheim an der Ruhr, Oberhausen, Moers og Selm.
Húsleit var gerð á fjölda staða í Essen, Mülheim an der Ruhr, Oberhausen, Moers og Selm. Getty

29 lögreglumönnum í Þýskalandi hefur verið vikið úr starfi og þurfa að sæta rannsókn vegna gruns um að hafa deilt áróðri hægri-öfgamanna í spjallhópum. Talsmaður stéttarfélags lögreglumanna segir málið „óþolandi“.

Lögreglumenn í Norðurrín-Vestfalíu gerðu húsleit á 34 heimilum og skrifstofum starfsbræðra sinna í gær vegna rannsókna á fimm spjallhópum lögreglumanna í forritinu WhatsApp. Málið snýr að spjallhópum sem voru virkir á árunum 2013 til 2015 þar sem finna mátti 126 áróðursmyndir, þar á meðal myndir af Adolf Hitler og samsettar myndir af flóttamönnum í gasklefum.

Herbert Reul, innanríkisráðherra Norrðurrín-Vestfalíu, sagði frá málinu í gær og lýsti hann efninu sem deilt var sem „andstyggilegu“.

Frank Richter, lögreglustjóri í Essen, kveðst vera í áfalli vegna málsins og ekkert botna í því að enginn lögreglumannanna hafi tilkynnt um deilingarnar til yfirboðara sinna.

Flestir í Essen

Reul segir að fjórtán hinna 29 lögreglumanna verði líklega reknir úr lögreglu, en ellefu þeirra hafi deilt efninu svo að glæpsamlegt megi kalla. Þá sé líklegt að hinum verði refsað með öðrum hætti, en að þeir hafi allir komið óorði á um 50 þúsund manna lögreglulið Norðurrín-Vestfalíu. „Hægri öfgamenn og nýnasistar eiga engan stað í lögregluliði Norðurrín-Vestfalíu, í okkar lögregluliði,“ sagði Reul.

25 þessara 29 lögreglumanna störfuðu í borginni Essen, þar sem íbúar telja tæplega 600 þúsund.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×