Innlent

Kalla eftir tæknilausnum til að létta á heilbrigðis- og menntakerfinu

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups, segir ýmsa samskiptatækni geta létt undir daglegum verkefnum starfsfólks í mennta- og heilbrigðiskerfinu.
Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups, segir ýmsa samskiptatækni geta létt undir daglegum verkefnum starfsfólks í mennta- og heilbrigðiskerfinu.

Icelandic Startups hefur kallað eftir tæknilausnum sprotafyrirtækja á sviði heilbrigðistækni og kennslutækni sem geta stutt heilbrigðis- og menntakerfið á tímum kórónuveirunnar.

„Við vinnum í þessu nýsköpunarumhverfi og okkur langar að draga fram sprota sem eru með lausnir sem eru komnar það langt í þróun að við getum prófað þær,“ segir Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups.

Um þrjátíu tæknilausnir hafa borist frá því kallað var eftir þeim nú rétt fyrir helgi.

„Við munum fara yfir þetta strax á morgun, gera greiningu á hvað er hægt að nýta og koma því á framfæri,“ segir Salóme.

Verið er að kalla eftir tæknilausnum sem má með lítilli fyrirhöfn prófa eða nýta. Til að mynda tæknilausnir sem auðvelda fjarkennslu og tæknilausnir sem auðvelda læknum að útskrifa sjúklinga fyrr, veita eftirfylgni eða fylgjast með sjúklingum sem eru á fyrstu stigum Kórónuveirunnar.

„Þetta eru fyrst og fremst tæknilausnir sem auðvelda samskipti. En einnig köllum við eftir ábendingum sérfræðinga og heilbrigðisstarfsmanna varðandi helstu áskoranirnar sem þarf að leysa,“ segir Salóme.

Icelandic Startups verður þá milliliður sprotafyrirtækja og þeirra sem takast á við daglegu verkefnin í heilbrigðis- og menntakerfinu. Þannig vilja samtökin leggja sín lóð á vogarskálarnar og fullvissa sig um að allar mögulegar lausnir sem geti létt á í samfélaginu séu aðgengilegar.

Salóme bendir bæði sprotafyrirtækjum og þeim sem hafa ábendingar að hafa samband í gegnum heimasíðu Icelandic Startups.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×