Innlent

Nú­verandi ráð­stafanir „von­lausar fyrir ferða­þjónustuna“

Sylvía Hall skrifar
Bjarnheiður Hallsdóttir.
Bjarnheiður Hallsdóttir.

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að slökkt hafi verið á alþjóðlegri ferðaþjónustu hér á landi þann 19. ágúst þegar hertar aðgerðir á landamærunum tóku gildi. Frá þeim degi þurftu allir ferðamenn í tvöfalda skimun og sóttkví við komuna til landsins, en gripið var til þeirra ráða eftir að innanlandssmitum fór að fjölga á ný.

Hún segir núverandi ráðstafanir „vonlausar fyrir ferðaþjónustuna“ og því nauðsynlegt að leita annarra leiða til þess að samræma bæði sóttvarnaleg og hagræn sjónarmið. Það sé brýnt að gera ferðamönnum kleift að koma hingað til lands með minna íþyngjandi hætti.

Til skoðunar er að heimila einfalda ferðamennsku með sóttvarnaráðstöfunum en forsætis- og heilbrigðisráðherra eru sammála um að hófstilltar sóttvarnaaðgerðir á landamærunum hafi borið árangur.

Þegar fyrra fyrirkomulag var í gildi þurftu ferðamenn eingöngu að fara í eina skimun á landamærunum og voru þeir sem komu frá „öruggum svæðum“ undanþegnir skimun. Bjarnheiður segir það fyrirkomulag hafa verið minna íþyngjandi en kannski ekki raunhæft eins og staðan er núna.

„Sú útfærsla er kannski ekki raunhæf í dag – enda erum við ekkert að biðja um að það verði slegið neitt af sóttvarnaráðstöfunum heldur að þessi tvö sjónarmið verði samþætt svo það verði hægt að keyra ferðaþjónustuna aftur í gang,“ sagði Bjarnheiður í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Hún segir ákveðna hópa vera tilbúna til þess að ferðast þrátt fyrir að faraldurinn sé í vexti í mörgum nágrannalöndum.

„Það hefur sýnt sig og sýndi sig á síðastliðnum vikum að eftirspurnin jókst stöðugt. Fólk virðist vera tilbúið að ferðast, allavega ákveðnir hópar. Það yrði náttúrulega aldrei eins og það væri í venjulegu ári en myndi vissulega muna um það eins og staðan er núna.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×