Erlent

Varð fyrir ör frum­byggja í eftir­lits­ferð og lést

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Rieli Franciscato leiddi verkefni á vegum frumbyggjaskrifstofunnar sem ætlað var að vernda einangraða ættbálka í Amasonfrumskóginum.
Rieli Franciscato leiddi verkefni á vegum frumbyggjaskrifstofunnar sem ætlað var að vernda einangraða ættbálka í Amasonfrumskóginum. Samsett/getty

Einn helsti sérfræðingur Brasilíu í einangruðum ættbálkum frumbyggja Amasonfrumskógarins lést eftir að hafa orðið fyrir ör frumbyggja á miðvikudag.

Rieli Franciscato var í eftirlitsferð á vegum frumbyggjaskrifstofu ríkisins í hinu afskekkta Rondônia-ríki í norðvesturhluta Brasilíu í fyrradag. Samkvæmt framburði vitna á staðnum urðu Franciscato og fylgdarlið hans fyrir örvadrífu frumbyggja. Franciscato reyndi að skýla sér bak við bíl en fékk ör í brjóstið. Franciscato er sagður hafa fjarlægt örina sjálfur úr brjóstinu, hlaupið um fimmtíu metra og að endingu hnigið niður.

Haft er eftir Gabriel Uchida fréttaljósmyndara í frétt AFP-fréttaveitunnar að Franciscato hafi ætlað að vitja ættbálks sem kenndur er við Cautario-ána. Ættbálkurinn sé oftast friðsamur en á miðvikudag hafi fimm vopnaðir menn úr ættbálknum mætt Franciscato og fylgdarliði hans. „Herlið,“ segir Uchida.

Survival Indernational, réttindasamtök frumbyggja, segja Franciscato hafa verið kallaðan út að svæðinu eftir að þar sást ítrekað til einangraðra frumbyggja undanfarna mánuði. Skógareyðing hafi verið gríðarleg á svæðinu síðustu ár og með henni hafi verið þjarmað verulega að heimkynnum ættbálkanna. Andlát Fransciscato hafi þannig nær vafalaust verið „svar við hinum gríðarlega þrýstingi“ sem frumbyggjar og regnskógurinn þeirra sitji nú undir.

Franciscato leiddi verkefni á vegum frumbyggjaskrifstofunnar sem ætlað var að vernda einangraða ættbálka í Amasonfrumskóginum og vann að málaflokknum í yfir þrjátíu ár, að því er segir í frétt BBC. Hann var 56 ára.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×