Erlent

Kenna hver öðrum um dauða Floyd

Samúel Karl Ólason skrifar
Derek Chauvin er ákærður fyrir að hafa myrt George Floyd.
Derek Chauvin er ákærður fyrir að hafa myrt George Floyd. EPA/Fógetinn í Hennepinsýslu

Lögregluþjónarnir fyrrverandi, sem hafa verið ákærðir í vegna morðs George Floyd, virðast hafa snúist gegn hver öðrum. Þeim ber ekki saman um hvað gerðist þann dag og kenna hvor öðrum um dauða Floyd. Þá ber þeim ekki saman um hver fór með stjórn á vettvangi.

Floyd dó þann 25. maí. Myndbönd sýna lögregluþjóninn Derek Chauvin halda Floyd niðri með því að hafa hné sitt á hálsi hans í nærri því níu mínútur, eftir að hafa handtekið hann fyrir að framvísa fölsuðum seðli. Jafnvel þó vegfarendur sögðu Floyd vera hættan að anda fjarlægði Chauvin ekki hné sitt af hálsi hans.

Hann og fjórir aðrir lögregluþjónar voru svo handteknir og ákærðir. Chauvin hefur verið ákærður fyrir morð af annarri gráðu og hinir þrír, Alexander Kueng, Thomas Lane og Tou Thao, fyrir að hafa aðstoðað við eða stuðlað að morðinu á Floyd.

Yngri lögregluþjónarnir, þeir Kuen og Lane, segjast hafa verið að hlýða reynslumeiri og hærri settum lögregluþjónum. Chauvin og Thao sem komu á vettvang eftir að Kuen og Lane reyndu að handtaka Floyd, segjast eingöngu hafa verið að aðstoða við handtöku.

Tou Thao, Thomas Lane og Alexander Kueng.EPA/Fógetinn í Hennepinsýslu

Verið var að setja Floyd í lögreglubíl þegar hann stífnaði upp og féll til jarðar. Floyd sagðist vera með innilokunarkennd og vildi ekki fara inn í bílinn. Þá komu Chauvin og Tou Thao á vettvang og reyndu að koma Floyd í bílinn. Að endingu lögðu þeir hann flatan á jörðina, í handjárnum, og héldu honum þar.

Chauvin setti hné sitt á háls Floyd og eftir nokkurn tíma spurði Lane hvort ekki væri réttast að velta Floyd á hliðina. Chauvin vildi það ekki.

Samkvæmt frétt Washington Post vilja lögmenn lögregluþjónanna að réttað verði yfir þeim í sitthvoru lagi. Vegna mismunandi afstöðu þeirra sé annað ekki hægt. Taka á ákvörðun um það á morgun, föstudag.

Dauði Floyd hefur leitt til mikillar mótmælaöldu í Bandaríkjunum og víðar um heim.

Yfirvöld í Minneapolis hafa látið girða af svæðið í kringum dómshúsið og setja hlera á glugga hússins, þar sem búist er við miklum mótmælum.


Tengdar fréttir

Chauvin ákærður fyrir skattsvik

Derek Chauvin, fyrrverandi lögreglumaðurinn sem olli dauða George Floyd þegar hann kraup á hálsi hans í hátt í níu mínútur, hefur verið ákærður fyrir skattaundanskot.

„Þú munt drepa mig, maður“

Bandaríski fyrrverandi lögreglumaðurinn Derek Chauvin, sem varð valdur að dauða George Floyd í Minneapolis í Minnesota í Bandaríkjunum í lok maí á þessu ári, sagði Floyd ítrekað að hætta að tala á meðan hann hélt hné sínu að hálsi hans í nærri átta mínútur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×