Þungt hljóð er í sauðfjárbændum vegna lítilla hækkana á afurðaverði og óttast talsmaður þeirra að margir muni fækka fé í haust. Þó sóttu aðeins fimm bændur um sérstakan aðlögunarstyrk til að hætta sauðfjárbúskap, þeirra á meðal hjónin á bænum Borgum við Þistilfjörð, sem rætt var við í fréttum Stöðvar 2.
Í strjálbýlli sveitum er sauðfjárbúskapur víðast hvar helsta undirstaða byggðar. Á norðausturhorni landsins, í Kollavík við vestanverðan Þistilfjörð, eru enn tveir bæir í byggð en á öðrum þeirra, Borgum, hafa hjónin Eiríkur Kristjánsson og Vigdís Sigurðardóttir ákveðið að hætta með sauðfé.

„Við reiknum með að hætta með sauðfé í haust,“ segir Vigdís.
„Fara bara meira í æðarfuglinn og silunginn, kannski,“ segir Eiríkur.
„Sinna hlunnindum og kannski bara einhverri ævintýramennsku,“ segir Vigdís.
Þau segja heilsufar spila inn í þessa ákvörðun en einnig sjá þau fram á það að geta ekki uppfyllt kröfur eftirlitsstofnunar um lagfæringar á fjárhúsunum.
Þau segjast vera orðin gömul, hafi þessvegna ætlað að fækka en segja að þá sé betra að hætta áður en þau missi alveg tökin á búrekstrinum.

Borgir eru í hópi fimm sauðfjárbýla sem sóttu um til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins í sumar um að fá beingreiðslur í þrjú ár til búháttabreytinga við það að hætta sauðfjárbúskap. Þau segja þetta raunar endanlega ákvörðun að hætta og stefna að því að farga öllu fé eftir smölun í haust.
Framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda, Unnsteinn Snorrason, segir þungt hljóð í bændum um þessar mundir eftir nýjustu ákvörðun sláturleyfishafa um að hækka afurðaverð til bænda að meðaltali um sjö prósent. Bændur höfðu sjálfir krafist 28 prósenta hækkunar eftir verðfall síðustu ára.
Unnsteinn óttast að fleiri bændur dragi saman og fækki fé. Það skýrist þó vart fyrr en í vetrarbyrjun hversu margir hætta.

En mun einhver taka við búinu af þeim Eiríki og Vigdísi í Kollavík?
„Ekki eins og er,“ svarar Vigdís
Þau halda þó í vonina um að eitt barnabarnið gæti haft áhuga.
„Það er náttúrlega síður þegar búið er að skera kvótann niður og hætta,“ segir Eiríkur.
„Það er bara margt annað til en sauðfé,“ segir Vigdís.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Bændur á svæðinu eru afar stoltir af afurðum sínum, eins og fram kom í þessari frétt um Fjallalamb á Kópaskeri árið 2009: