Innlent

Einu matvöruverslun Reykhólasveitar lokað

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hólabúð á Reykhólum er eina matvöruverslun Reykhólahrepps. Þar hefur einnig verið rekin veitingasala.
Hólabúð á Reykhólum er eina matvöruverslun Reykhólahrepps. Þar hefur einnig verið rekin veitingasala. Mynd/Hólabúð.

Eigendur Hólabúðar á Reykhólum hafa tilkynnt að versluninni verði lokað um næstu mánaðamót. Jafnframt verður rekstri veitingastaðarins 380 Restaurant hætt. Fyrir íbúa Reykhóla þýðir þetta að 50 til 60 mínútna akstur verður í næstu búð til að kaupa í matinn.

„Kæru viðskiptavinir, okkur þykir það leitt að tilkynna ykkur að í kringum næstu mánaðamót, september-október, verður Hólabúð og 380 Restaurant lokað varanlega,“ segja eigendurnir, hjónin Reynir Þór Róbertsson og Vilborg Ása Fossdal, í tilkynningu sem birt er á Reykhólavefnum.

Eigendur Hólabúðar og veitingastaðarins, hjónin Vilborg Ása Fossdal og Reynir Þór Róbertsson, hafa ákveðið að hætta rekstrinum um næstu mánaðamót.Mynd/Hólabúð.

„Þetta er bara mjög erfiður rekstur. Veturinn er það erfiður að sumarið þarf að borga niður veturinn,“ segir Reynir í samtali við fréttastofu.

Hann segir að eftir fólksfækkun í sveitinni síðustu misseri sjái þau fram á að rekstrargrundvöllur sé brostinn.

„Stórar fjölskyldur hafa flutt burt. Í fyrravetur voru 75 börn í skólanum. Börnin eru 53 núna.

Þessar stóru fjölskyldur sem fóru voru miklir og góðir viðskiptavinir. Þegar hver einasta fjölskylda fer, þá finnum við högg,“ segir Reynir og segir þau hjónin ætla að snúa aftur til Suðurnesja, þaðan sem þau komu fyrir fimm árum.

Frá Reykhólum.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Langt verður frá Reykhólum í næstu matvöruverslanir eftir lokun Hólabúðar, 58 kílómetrar til Hólmavíkur og 75 kílómetrar í Búðardal.

Þau Reynir Þór og Vilborg Ása opnuðu Hólabúð í mars 2015, tveimur mánuðum eftir að eigendur fyrri matvöruverslunar í sama húsi höfðu lokað. Veitingastaðinn opnuðu þau tveimur árum síðar.

Hér má sjá fréttir af verslunarmálum Reykhólasveitar fyrir fimm árum:


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.