Erlent

Eitrað fyrir Navalny með nýrri tegund Novichok

Samúel Karl Ólason skrifar
Alexei Navalny er sagður heppinn að vera á lífi.
Alexei Navalny er sagður heppinn að vera á lífi. EPA/YURI KOCHETKOV

Þýskir rannsakendur hafa komist að þeirri niðurstöðu að eitrað var fyrir Alexei Navalny með nýrri tegund taugaeitursins Novichok. Navalny lifði af en þó eingöngu fyrir einskæra heppni og skjót viðbrögð bæði flugstjóra og lækna. Þjóðverja grunar að einn útsendara FSB, leyniþjónustu Rússlands, sem elt hafa Navalny, eða annar útsendari leyniþjónusta Rússlands, hafi sett eitrið í eða á tebolla Navalny, en ummerki eitursins fundust bæði á höndum hans og bollanum.

Þetta kemur fram í frétt Zeit, sem hefur upplýsingarnar eftir þýskum embættismönnum.

Sérfræðingar segja að það að nýrri útgáfu Novichok hafi verið beitt sé sönnun þess að eitrunin hafi verið framkvæmd af hinu opinbera í Rússlandi.

Novichok var einnig notað til þess að eitra fyrir Sergei Skrípal, rússneskum fyrrverandi njósnara sem, og dóttur hans í bænum Salisbury á Englandi árið 2018. Bresk stjórnvöld telja að Vladímír Pútín, forseti Rússlands, hafi skipað fyrir um tilræðið við Skrípal sem komst lífs af. Pútín hefur kallað Skrípal svikara og drullusokk.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur sagt að eina mögulega atburðarásin sé að ákvörðun hafi verið tekin í Kreml að kominn væri tími til að þagga í Navalny, sem hefur verið í forsvari fyrir stjórnarandstöðuna í Rússlandi og varið miklum tíma og orku í að rannsaka spillingu embættismanna.

Angela Merkel og Vladimir Pútín.EPA/Hayoung Jeon

Segja málið tilbúning

Utanríkisráðuneyti Rússlands segir að um tilbúning og áróður sé að ræða og markmiðið sé að réttlæta viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi. Ásakanir gegn Rússlandi hafi ekkert með „heilsuvanda“ Navalny að gera. Þjóðverjar segjast vera með sönnunargögn.

Sendiherra Þýskalands í Rússlandi var kallaður á teppið í Moskvu í gær, eftir að utanríkisráðherrar G7-ríkjanna sendu frá sér yfirlýsingu þar sem yfirvöld í Rússlandi er hvött til þess að rannsaka eitrunina ítarlega.

„Við utanríkisráðherrar Kanada, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Japan, Bretlands og Bandaríkjanna, auk fulltrúa Evrópusambandsins, fordæmum, á sterkasta mögulegasta máta, hina staðfestu eitrun Alexei Navalny,“ sagði í yfirlýsingunni.

Navalny varð veikur í síðasta mánuði, þann 20. ágúst, þegar hann var á leið frá Síberíu til Moskvu. Neyðarlending var framkvæmd í borginni Omsk og hann fluttur á sjúkrahús. Þar brugðust læknar skjótt við og gáfu honum Atrópín, sem Þjóðverjar segja að hafi bjargað lífi hans. Hann féll þó í dá.

Aðstandendur Navalny voru fljótt sannfærðir um að reynt hefði verið að eitra fyrir honum og reyndu að fá hann fluttan til Þýskalands. Það gekk ekki sem skildi og tafðist um nokkra daga. Hann var þó að endingu fluttur til Þýskalands og er þar enn. Hann var vakinn úr dái á mánudaginn.

Læknar segja of snemmt að segja til um langtímaáhrif eitursins sem honum var byrlað.

Ráðamenn vestrænna ríkja hafa rætt að beita Rússa viðskiptaþvingunum vegna eitrunarinnar. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur þegar orðið fyrir þrýstingi um að endurskoða ákvörðun sína varðandi Nord Stream 2 gasleiðsluna sem á að flytja gas frá Rússlandi til Þýskalands.


Tengdar fréttir

Navalní vaknaður úr dáinu

Læknar á sjúkrahúsi í Berlín segja að líðan Alexei Navalní, leiðtoga rússnesku stjórnarandstöðunnar, hafi batnað þannig að óhætt hafi verið að vekja hann úr dái.

Krefjast þess að Rússar upplýsi um taugaeitursáætlun sína

Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) krefst þess að rússnesk stjórnvöld veiti alþjóðlegum eftirlitsmönnum aðgang að upplýsingum um taugaeitrið novichok sem talið er að hafi verið notað til að eitra fyrir rússneska stjórnarandstæðingnum Alexei Navalní.

Þvertaka fyrir að hafa eitrað fyrir Navalny

Ríkisstjórn Rússlands þvertekur fyrir að bera á nokkurn hátt ábyrgð á því að eitrað hafi verið fyrir Alexei Navalny, einum helsta stjórnarandstæðingi Rússlands, með taugaeitrinu Novichok.

Eiginkona Navalny biðlar til Pútín

Hópur þýskra lækna er nú á sjúkrahúsinu þar sem Alexei Navalny er í dái. Hópurinn ferðaðist til Rússlands með sjúkraflugi til að sækja Navalny og flytja hann til Þýskalands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×