Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - Valur 1-2 | Hlín kom Val til bjargar í blálokin

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Vísir/Daníel

Valur vann í dag góðan 1-2 sigur á Selfossi, en sigurmark Vals kom í uppbótartíma. Valskonur voru sterkari aðilinn stærstan hluta leiksins og sigurinn var nokkuð verðskuldaður. Hlín Eiríksdóttir skoraði bæði mörk Vals, en það var Tiffany MC Carty sem skoraði mark Selfoss úr vítaspyrnu.

Fyrri hálfleikur var frekar jafn en Valskonur voru þó sterkari aðilinn. Það tók Val ekki nema 12 mínútur að komast yfir, en þá átti Elín Metta frábæra stungusendingu og rangstöðugildra Selfyssinga klikkaði. Sendingin fann Hlín Eiríksdóttir sem lék á Kaylan í markinu og renndi boltanum inn, virkilega vel gert hjá Valsstúlkum.

Nokkur hálffæri litu dagsins ljós í seinni hálfleik. Elín Metta kom sér í fínt færi þegar hún lék á einhverja fjóra varnarmenn Selfoss, en skot hennar var framhjá á 30.mínútu.

Á 35.mínútu skoraði Hallbera Gísladóttir svo nánast úr hornspyrnu þegar spyrna hennar fór á markið og Kaylan átti í stökustu vandræðum með að grípa boltann. Selfyssingar voru þó heppnir að boltinn datt fyrir varnarmann þeirra sem þrumaði boltanum frá.

Seinni hálfleikur byrjaði á tveim áföllum fyrir Selfoss. Dagný Brynjarsdóttir fékk högg í fyrr hálfleik og fór út af í hléinu og á 52.mínútu meiddist Hólmfríður Magnúsdóttir og þurfti að fara af velli.

Selfyssingar létu þessi áföll þó ekki stoppa sig og seinni hálfleikurinn var í nokkru jafnvægi fyrstu mínúturnar.

Lítið var um færi í seinni hálfleiknum þangað til að Tiffany MC Carty var við það að komast í kjörið færi en Guðný Árnadóttir felldi hana í teignum og vítaspyrna dæmd á 72.mínútu. Tiffany fór sjálf á punktinn og skoraði af miklu öryggi.

Valur sótti svo nánast það sem eftir var af leiknum, en Selfyssingar fengu tvær ákjósanlegar skyndisóknir til að klára leikinn, en það gekk ekki.

Það var ekki fyrr en á 91.mínútu sem Valskonur náðu svo loksins að skora sigurmarkið, en aftur var það Hlín Eiríksdóttir á ferðinni. Hún fékk boltann inn í teignum, lék á einn varnarmann og átti fast skot í fjærhornið sem Kaylan réði ekki við og 1-2 sigur Vals því staðreynd.

Af hverju vann Valur?

Valskonur voru sterkari aðilinn stærstan hluta leiksins og áttu sigurinn skilið. Stelpurnar frá Hlíðarenda hefðu getað skapað sér fleiri færi en vörn Selfyssinga hélt oft á tíðum vel.

Hverjar stóðu upp úr?

Hlín Eiríksdóttir átti flottan leik fyrir Valskonur og skoraði bæði mörk liðsins. Ekki bara það að hún hafi skorað þessi mörk heldur skilaði hún mikilli vinnu í dag, bæði varnar- og sóknarlega. Elín Metta var líka oft hættuleg í liði Vals og Hallbera Gísladóttir skilaði einnig ágætis vakt.

Í liði Selfoss voru það Magdalena Anna og Karítas Tómasdóttir sem áttu fínan leik. Þær voru alltaf að og stóðu fyrir sínu á miðjunni.

Hvað gekk illa?

Í heildina var þetta ágætis fótboltaleikur. Það komu kaflar í leiknum þar sem báðum liðum gekk illa að tengja sendingar og fyrirgjafir og horn Vals sköpuðu oft vandræði fyrir Kaylan sem leit óörugg út þegar hún reyndi að slá boltann frá.

Hvað gerist næst?

Selfoss fer í Vesturbæinn og heimsækir KR sem vann í dag sinn leik og lyfti sér af botninum og upp í áttunda sæti. Mikilvægur leikur fyrir bæði lið, en KR er enn í botnbaráttu og Selfoss gæti farið að sogast þangað niður ef þær vinna ekki.

Valskonur heimsækja Stjörnuna, en Stjarnan gæti farið að gæla við botnbaráttu, eins og Selfoss, vinni þær ekki þann leik. Valur er eins og flestir vita í harðri toppbaráttu við Breiðablik og þurfa því á sigri að halda.

Pétur: Þetta verður bara barátta fram á síðasta leik

„Ég er bara hrikalega ánægður með stelpurnar, þetta var bara góður leikur hjá okkur og sanngjarn sigur,“ sagði Pétur Pétursson, þjálfari Vals eftir sterkan sigur í dag.

Þrátt fyrir að staðan hafi verið jöfn og komið í uppbótartíma, segist Pétur ekki hafa verið of stressaður. „Nei, nei, við vitum það alveg að Selfoss er með hörkulið, eitt besta liðið í deildinn og 1-1 er ekkert góð staða á 90.mínútu en ég veit það að þessar stelpur frá okkur þær ætluðu sér að vinna leikinn hér í dag og þær sýndu það þegar uppi var staðið.“

Pétur vildi svo ekki gefa mikið upp varðandi toppbaráttuna við Breiðablik. „Það er bara næsti leikur á móti Stjörnunni á sunnudaginn og svo fara þær í landsleikjahlé þannig að þetta verður bara barátta fram á síðasta leik.“

Alfreð: Þetta er eitt af þeim liðum sem við eigum að vinna

„Það er bara grautfúlt að tapa þessu, þetta var náttúrulega orðinn svona ping pong bolti svona í restina en mér fannst við vera með meira á tanknum og við tóku dálítið yfirhöndina í leiknum í seinni hálfleik fannst mér þannig að það er mjög svekkjandi að hafa tapað,“ sagði Alfreð Elías, þjálfari Selfoss eftir leikinn gegn Val í dag.

Selfoss fékk skyndisóknir undir lok leiks til að stela stigunum þrem og Alfreð hefði viljað sjá stelpurnar gera betur þar. „Já, klárlega, það var eitt tækifæri þar sem við vorum þrjár á tvær en spennustigið er mikið og við þurfum bara að læra af þessu. Við eigum ekki að fá á okkur mark á seinustu mínútunum , það er alveg hrikalega svekkjandi á móti þessu liði, við eigum bara ekki að tapa á móti þessu liði, þetta er eitt af þeim liðum sem við eigum að vinna.“

Selfyssingar misstu tvo mjög mikilvæga leikmenn út af vegna meiðsla, Dagný fór út af í hálfleik og Hólmfríður skömmu seinna, en Alfreð hafði ekki miklar upplýsingar um stöðu þeirra mála. „Ég bara veit ekki alveg hvað kom fyrir, ég held að það hafi verið rist og ökkli. Stelpurnar sem komu inná voru brilliant, það var ekki að sjá að það hefði vantað þær, þær bara tóku af skarið og þetta bara gekk ágætlega upp. Maður hefði viljað gera betur og taka stigin þrjú.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira