Fótbolti

Ronaldo færist nær heimsmetinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cristiano Ronaldo nálgast metið yfir flest landsliðsmörk karla í sögunni.
Cristiano Ronaldo nálgast metið yfir flest landsliðsmörk karla í sögunni. getty/David Lidstrom

Cristiano Ronaldo varð í gær fyrsti Evrópubúinn og annar leikmaðurinn í sögunni til að skora hundrað landsliðsmörk.

Ronaldo skoraði bæði Portúgals í 0-2 sigri á Svíþjóð í Þjóðadeildinni í gær. Þetta voru landsliðsmörk númer 100 og 101. Hann hefur leikið 165 landsleiki.

Metið yfir flest landsliðsmörk karla á Ali Daei sem skoraði 109 mörk fyrir íranska landsliðið á árunum 1993-2006. Ronaldo vantar nú aðeins átta mörk til að jafna heimsmet Daeis og níu mörk til að bæta það.

Ronaldo lék sinn fyrsta landsleik 2003 og skoraði sitt fyrsta landsliðsmark ári seinna. Hann hefur mest skorað fjórtán landsliðsmörk á einu ári (2014).

Aðeins sautján af 101 landsliðsmarki Ronaldos hafa komið í vináttulandsleikjum. Hann hefur skorað sjö mörk á HM, níu á EM, fimm í Þjóðadeildinni, tvö í Álfukeppninni, 31 í undankeppni EM og 30 í undankeppni HM.

Litháen og Svíþjóð eru uppáhalds andstæðingar Ronaldos en hann hefur skorað sjö mörk gegn hvorri þjóð. Ronaldo hefur skorað eitt mark gegn Íslandi, í undankeppni EM fyrir tíu árum. Alls hefur hann skorað gegn 41 þjóð á landsliðsferlinum.

Níu sinnum hefur Ronaldo skorað þrjú mörk eða meira í landsleik. Athyglisvert er að hann skoraði sína fyrstu þrennu fyrir Portúgal ekki fyrr en 2013, þegar hann var 28 ára. 

Portúgal er með fullt hús stiga eftir tvo leiki í riðli 3 í A-deild Þjóðadeildarinnar. Næsti leikur Ronaldos og félaga er gegn heimsmeisturum Frakklands á Stade de France 11. október. Þremur dögum síðar mætir Portúgal Svíþjóð á heimavelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×