Enski boltinn

Stjörnurnar halda áfram að flykkjast til Englands

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lucy Bronze kvaddi Lyon með Evrópumeistaratitli.
Lucy Bronze kvaddi Lyon með Evrópumeistaratitli. getty/Alejandro Rios

Enska landsliðskonan Lucy Bronze er gengin í raðir Manchester City frá Lyon. Hún skrifaði undir tveggja ára samning við City.

Síðasti leikur Bronze með Lyon var úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu þar sem liðið sigraði Wolfsburg, 3-1. Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði eitt marka Lyon í leiknum.

Bronze lék áður með City á árunum 2014-17 áður en hún fór til Lyon. Hún varð þrisvar sinnum franskur meistari og þrívegis Evrópumeistari með liðinu. Þá varð Bronze tvöfaldur meistari með City 2016.

Hin 28 ára Bronze, sem leikur jafnan í stöðu hægri bakvarðar, var valin næstbesti leikmaður heimsmeistaramótsins í fyrra þar sem England endaði í 4. sæti. Hún hefur verið í lykilhlutverki í enska landsliðinu undanfarin ár og hjálpað því að komast í undanúrslit á þremur stórmótum í röð.

Auk Bronze hefur City m.a. fengið Rose Lavelle sem skoraði í úrslitaleik HM í fyrra. Fleiri stjörnur hafa komið í ensku úrvalsdeildina í sumar. Þar fer fremst í flokki Pernille Harder sem Chelsea keypti frá Wolfsburg.

City vann 0-2 útisigur á Aston Villa í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á laugardaginn. Georgia Stanway skoraði bæði mörk City í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×