Innlent

Kveðst hugsi yfir tví­skinnungnum sem hún telur birtast í bar­áttunni við Co­vid-19

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Valgerður Rúnarsdóttir er framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ.
Valgerður Rúnarsdóttir er framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ. Vísir/Baldur

Valgerður Rúnarsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ, kveðst hugsi yfir tvískinnungnum sem hún telur birtast í baráttu heimsins gegn kórónuveirufaraldrinum og Covid-19.

Hún segir að hin miklu viðbrögð við faraldrinum kalli á að fólk vakni líka af sinnuleysi gagnvart ýmsum vímugjöfum sem leggi fleiri að velli en Covid-19 á ári hverju.

Þetta kemur fram í viðtali við Valgerði í nýjasta tölublaði Læknablaðsins sem er nýkomið út en fyrst var fjallað um málið á vef RÚV.

Valgerður bendir á að það sem af er ári hafi 800 þúsund manns látist af völdum Covid-19.

„Heimurinn hefur snúist á hvolf vegna veirunnar. Á ári hverju deyja 8 milljónir af tóbaksreykingum og þrjár milljónir úr ofneyslu áfengis samkvæmt tölum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni. En við erum samdauna því og afar lítil stemmning til að taka á þeim vanda með samtakamætti heimsins,“ segir Valgerður.

Þá séu fleiri á miðjum aldri í daglegri áfengisneyslu nú en fyrir faraldurinn og metfjöldi fá nú lyf við ópíóðafíkn. Að sögn Valgerðar eru nú 185 einstaklingar í lyfjameðferð við ópíóðafíkn á göngudeildinni á Vogi og hafa þeir aldrei verið fleiri.

Valgerður hvetur heilbrigðisstarfsfólk til að vera á varðbergi gagnvart lyfja- og áfengisneyslu skjólstæðinga sinna.

„Fleira fólk glímir við vanda vegna sterkra verkjalyfja: contalgíns, oxycontíns, tramadóls og kódeinlyfja. Flestir taka lyfin inn en við sjáum merki þess að fleiri reyki þau en áður,“ segir Valgerður.

Viðtalið við Valgerði má lesa í heild sinni á vef Læknablaðsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×