Innlent

Minnst 500 þyrftu að mega koma saman svo menningar­líf blómstri á ný

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Magnús Geir Þórðarson, þjóðleikhússtjóri.
Magnús Geir Þórðarson, þjóðleikhússtjóri. ÞJÓÐLEIKHÚSIÐ

Tvö hundruð mega koma saman frá og með morgundeginum og nálægðartakmörk verða miðuð við einn metra. Þjóðleikhússtjóri segir að til að menningarlífið fari að blómstra á ný þurfi 500 manns að mega koma saman.

Auglýsing heilbrigðisráðherra um rýmri samkomutakmarkanir tekur gildi á miðnætti. Þá mega tvö hundruð koma saman. Tveggja metra reglan verður afnumin og í staðinn verða fjarlægðartakmörk miðuð við einn metra.

Strandar á eins metra reglunni

Kristinn Þorsteinsson, formaður Skólameistarafélags Íslands segir rýmri samkomutakmarkanir auðvelda skólahald að því leyti að hægt verður að opna á milli rýma. Málin strandi þó á eins metra reglunni, en ekki sé hægt að útfæra skólahald að fullu í staðnámi vegna hennar.

Kristinn Þorsteinsson, formaður Skólameistarafélags Íslands og skólameistari í FG.STÖÐ2

Þjóðleikhússjóri segir rýmkunina jákvætt skref. Nú verður hægt að setja á svið sýningar í minni sölum leikhússins. 200 manna takmark geri leikhúsinu þó ekki kleift að sýna á stóra sviðinu.

„Til að hægt sé að draga tjöldin frá hér á stóra sviðinu í Þjóðleikhúsinu þurfa hátt í 500 manns að mega koma saman,“

„Um leið og það er komið þá getum við byrjað að sýna Kardimommubæinn, Framúrskarandi vinkonu og þessar stóru sýningar og þá fyrst verður menningarlífið komið af stað af fullum krafti,“ sagði Magnús Geir Þórðarson, þjóðleikhússtjóri.

Hlakkar til að draga tjöldin frá

Aðspurður hvað sé því til fyrirstöðu að taka annað hvert sæti úr umferð og leyfa 200 manns í stóra salinn sem að jafnaði tekur rúmlega 500 manns - segir hann það meðal annars stranda á kostnaði.

„Þessar stóru sýningar eru auðvitað kostnaðarsamar á hverju kvöldi þannig það þarf bara ákveðinn fjölda til að standa undir kostnaði við hvert sýningarkvöld,“ sagði Magnús Geir.

„Mín trú og minn skilningur á samtölum við aðra í menningargeiranum er sá að það þurfi að fara með markið upp í svona 500 manns og helst að nándarreglan verði valkvæð til þess að menningarlífið fari af stað af fullum krafti.“

Þrír greindust með kórónuveiruna innanlands í gær og voru þeir allir í sóttkví. Þrír greindust á landamærunum og er beðið eftir niðurstöðu mótefnamælinga.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×