Enski boltinn

Van de Beek mun slá met í fyrsta leik sínum með Man Utd

Ísak Hallmundarson skrifar
Van de Beek í leik með hollenska landsliðinu á dögunum.
Van de Beek í leik með hollenska landsliðinu á dögunum. getty/ Laurens Lindhout

Manchester United gekk frá kaupum á Hollendingnum Donny van de Beek frá Ajax í liðinni viku. Hann er miðjumaður og kemur til liðsins á 40 milljónir punda.

Þegar van de Beek stígur inn á völlinn í fyrsta skipti í rauðri treyju United verður hann þrettándi Hollendingurinn til að spila fyrir liðið og mun þá Holland eiga met yfir flesta erlenda leikmenn sem leikið hafa fyrir Man Utd.

Arnold Muhren kom til Manchester United árið 1982 og varð þá fyrsti Hollendingurinn til að klæðast United treyjunni. 

Fjórtán árum seinna spiluðu Jordi Cruyff og Raimond van der Gouw fyrir liðið og þar á eftir gekk Jaap Stam til liðs við United liðið sem vann „þrennuna“ árið 1999.

Á þessari öld hafa margir frábærir hollenskir leikmenn spilað fyrir Manchester United, markavélarnar Ruud van Nistelrooy og Robin van Persie, markvörðurinn Edwin van der Sar og Memphis Depay þar á meðal.

Hollendingar munu þar með taka fram úr Frökkum, sem eiga tólf leikmenn sem hafa spilað fyrir Man Utd, þegar van de Beek mun spila sinn fyrsta leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×