Alfons Sampsted, fyrirliði íslenska U-21 árs landsliðsins var kampakátur með 1-0 sigur liðsins á Svíum fyrr í dag. Hann fer svo með A-landsliðinu til Belgíu og stefnir á að láta til sín taka þar líka.
„Það var mjög sætt að vinna þennan leik við ræddum það að tilfinningin í Svíþjóð eftir leik var skelfileg og vonuðumst við að hún yrði á hinn veginn í dag sem hún var svo sannarlega og er ég mjög stoltur af strákunum fyrir það,” sagði Alfons eftir sigurinn í dag.
Alfons var ánægður með þær reglur og skipulag sem liðið setti sér fyrir leikinn og að þeir lokuðu alfarið á þeirra hefðbundna leik sem þeir hafa farið illa með okkur í.
Alfons fannst þetta klárlega rautt spjald og um algert vilja verk að ræða frá Viktor Gyökeres sem setti olnbogann beint í andlitið á Alex.
Alfons tekur síðan þátt í verkefni A landsliðs Íslands á móti Belgíu sem er á næstu dögum.
„Ég met möguleikana mína góða og verður mjög gaman að mæta í hópinn til þeirra. Ég er spenntur að sjá leikinn á móti Englandi og síðan förum við saman til Belgíu þar sem ég er fyrst og fremst mættur til að gera mitt besta,” sagði Alfons um veru sína í A landsliðinu.