Íslenski boltinn

Selfoss upp að hlið Kórdrengja á toppi deildarinnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hrvoje Tokić skoraði tvö í kvöld.
Hrvoje Tokić skoraði tvö í kvöld. Vísir/Selfoss

Fjórir leikir fóru fram í 2. deild karla í fótbolta í kvöld. Selfoss vann mikilvægan sigur í toppbaráttunni en liðið lagði Hauka. ÍR vann Víði frá Garði 2-1 á heimavelli, KF lagði Dalvík/Reyni 3-1 og Völsungur vann góðan 0-1 útisigur á Fjarðabyggð.

Haukar heimsóttu Selfoss í kvöld og komust yfir á 13. mínútu þökk sé marki Gunnars Baldurssonar. Leiddu Haukar allt fram á 76. mínútu þegar Hrvoje Tokić steig upp fyrir heimamenn og jafnaði metin. 

Hann var aftur að verki tíu mínútum síðar og sá til þess að heimamenn lönduðu gríðar mikilvægum 2-1 sigri.

Selfyssingar eru nú í 2. sæti deildarinnar með 28 stig - líkt og topplið Kórdrengja - þegar 13 umferðum er lokið. Haukar eru hins vegar enn í 3. sæti með 24 stig.

Sigur ÍR lyftir þeim upp fyrir Víði í töflunni. Breiðhyltingar sitja nú í 9. sæti með 13 stig á meðan Víðir er sæti neðar með 12 stig. Dalvík/Reynir og Völsungur eru sem fyrr í fallsætunum tveimur.

Staðan í deildinni.

Það gæti verið að stöðutafla KSÍ eigi eftir að uppfærast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×