Fótbolti

Suárez verður væntanlega samherji mannsins sem hann beit

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luis Suárez heldur um framtennurnar eftir að hafa bitið Giorgio Chiellini á HM 2014.
Luis Suárez heldur um framtennurnar eftir að hafa bitið Giorgio Chiellini á HM 2014. getty/Matthias Hangst

Margt bendir til þess að Luis Suárez sé á leið til Ítalíumeistara Juventus frá Barcelona. Ítalski blaðamaðurinn Gianluca Di Marzio hjá Sky Sports gengur svo langt að segja að Suárez hafi náð samkomulagi við Juventus um kaup og kjör.

Ef af félagaskiptunum verða Suárez og Giorgio Chiellini samherjar hjá Juventus. Sem frægt er beit Suárez Chiellini í öxlina í leik Úrúgvæs og Ítalíu á HM 2014. Fyrir það var Suárez dæmdur í fjögurra mánaða bann frá fótbolta.

Þrátt fyrir að hafa verið bitinn virtist Chiellini hinn rólegasti, sagði að atvikið væri gleymt og grafið og óskaði eftir því að bann Suárez yrði stytt.

Skömmu eftir atvikið á HM var greint frá því að Barcelona hefði gengið frá kaupum á Suárez frá Liverpool. Úrúgvæinn byrjaði að spila með Barcelona þegar banni hans lauk í lok október 2014. Suárez vann þrefalt á sínu fyrsta tímabili með Barcelona.

Sex ára dvöl Suárez hjá Katalóníufélaginu virðist hins vegar vera á enda en Ronald Koeman, nýr knattspyrnustjóri liðsins, vill losna við hann.

Chiellini er fyrirliði Juventus sem hefur orðið ítalskur meistari undanfarin níu ár. Hann hefur leikið með félaginu frá 2005.


Tengdar fréttir

Úrslitastund í Messi-málinu í dag

Faðir og umboðsmaður Lionels Messi er mættur til Barcelona til að reyna að höggva á hnútinn í deilu sonar síns og Katalóníufélagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×