Innlent

Siðanefnd RÚV endurlífguð vegna kæru Samherja

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri.
Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri. Reykjavík

Endurskipað verður í siðanefnd Ríkisútvarpsins í ljósi kæru Samherja á hendur ellefu starfsmönnum RÚV. Skipunartími nefndarinnar rann út í fyrra. Þetta kemur fram í svari Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra við fyrirspurn Vísis.

Siðanefnd RÚV var skipuð haustið 2016 til þriggja ára í samræmi við siðareglur RÚV. Gunnar Ingi Jóhannsson var þá skipaður formaður nefndarinnar. Aðrir nefndarmenn voru Guðmundur Heiðar Frímannsson, aðalmaður fyrir hönd Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands og Sigríður Árnadóttir, aðalmaður fyrir hönd Starfsmannasamstaka RÚV. Til vara voru skipaðir Grétar J. Guðmundsson og G. Pétur Matthíasson.

„Endurskoðun siðareglna RÚV hefur staðið yfir frá síðasta ári og hefur því ekki verið endurskipað í nefndina. Í ljósi framkominnar kæru til siðanefndar hefur verið óskað eftir tilnefningum í nefndina og að þeim fengnum verður kæran send nefndinni til meðferðar,“ segir í svari Stefáns.

Á starfstíma nefndarinnar hafa henni borist tvær kvartanir, árin 2017 og 2019. Báðum kvörtunum var vísað frá nefndinni. Inntur eftir því hvort hægt sé að áætla hvenær endurskipun klárist, og þá hvenær kæran verði tekin til meðferðar, segir Stefán: „Vonandi fljótlega.“

Samherji tilkynnti skömmu fyrir hádegi að fyrirtækið hefði kært ellefu starfsmenn Ríkisútvarpsins til siðanefndar RÚV vegna ummæla þeirra um málefni Samherja á samfélagsmiðlum frá nóvember 2019 til ágúst 2020. Telur Samherji að með færslunum hafi starfsmennirnir gerst brotlegir við siðareglur RÚV, sem kveða á um að fréttamenn taki ekki opinberlega afstöðu til umdeildra mála.

Starfsmennirnir ellefu sem Samherji kærir fyrir siðanefnd eru Aðalsteinn Kjartansson og Helgi Seljan, fréttamenn sem báðir unnu að umfjöllun Kveiks um Samherja, Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks, Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri, Sigmar Guðmundsson dagskrárgerðarmaður, Snærós Sindradóttir verkefnastjóri og fréttamennirnir Freyr Gígja Gunnarsson, Lára Ómarsdóttir, Stígur Helgason, Sunna Valgerðardóttir og Tryggvi Aðalbjörnsson.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.